Rýmingarkort verða að vera til í rauntíma

Gömul og þar með að hluta til úrelt rýmingarkort flæktu vinnuna þegar rýma þurfti hús á Austfjörðum vegna ofanflóðahættu í lok mars. Rýmingarnar eru þó almennt hafa gengið vel.

Þetta var meðal þess sem fram kom á íbúafundi sem haldinn var í Neskaupstað fyrir viku en þar var farið yfir það ástand sem skapaðist þar og víðar á Austfjörðum dagana 27. – 1. apríl.

„Þessa daga var fimmtán sinnum gripið til rýmingar. Ein rýming er alla jafna stórt verkefni. Við stöndum við það sem við höfum sagt um að þessa daga hafi verið unnið þrekvirki af hálfu íbúa, viðbragðsaðila og annarra sem að verkefninu komu,“ sagði Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Rýmingarnar voru þegar uppi var staðið þær umfangsmestu síðan í Vestmannaeyjagosinu. Alls þurftu 997 að fara að heiman, inni í þeirri tölu er þó fólk sem þurfti að rýma heimili sitt oftar en einu sinni. Sex rýmingar voru í Neskaupstað, þrjár á Eskifirði, aðrar þrjár á Seyðisfirði, tvær á Fáskrúðsfirði og loks ein á Stöðvarfirði. Fjórar vettvangsstjórnir voru starfandi og mikið mæddi á þeim því lengi var ófært milli staða.

Fljótt fyrsta viðbragð


Kristján sagði fyrsta viðbragð hafa verið snöggt. Um klukkan hálf sex að morgni mánudagsins 27. mars féll flóð innan við byggðina í Neskaupstað. Aðgerðastjórn almannavarna var þá kölluð til og innan 45 mínútna voru allir fulltrúar sem höfðu hlutverk á þeirri stundu mættir.

Allt var því komið af stað þegar snjóflóðið féll á fjölbýlishúsin við Starmýri rétt fyrir klukkan sjö um morguninn og þess vegna var fjöldahjálparmiðstöð opnuð í Egilsbúð fyrir klukkan átta. Aðgerðastjórnin fundaði rafrænt, sem hefur verið venjan síðan í Covid-faraldrinum. Hún starfaði í einn og hálfan sólarhring, þar til liðsauki barst.

Kristján Ólafur talaði með þeim fyrirvara að rýni á aðgerðum hafði ekki farið fram. Hann sagðist þó fátt hafa farið beinlínis úrskeiðis þótt ákveðin atriði yrði að laga og nefndi þar rýmingarkortin. Í einhverjum hafi yfirvöld verið að vinna með gömul kort þannig að ný hús eða jafnvel hverfi hafi jafnvel vantað inni. Í vafamálum hefði verið rýmt meira en minna.

Skoða stafræn rýmingarkort


Rýmingarkort vegna snjóflóðahættu fyrir Fáskrúðsfjörð, Eskifjörð, Norðfjörð og Seyðisfjörð, sem aðgengileg eru á vef Veðurstofunnar, eru staðfest í október og desember 2007. Bráðabirgðakort vegna skriðuhættu á Seyðisfirði er síðan í janúar 2021. Ekki er til rýmingarkort fyrir Stöðvarfjörð.

Kristján Ólafur sagði þessar upplýsingar þurfa að vera til í rauntíma. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði sveitarfélagið byrjað að skoða stafræn rýmingarkort sem væru jafnvel þannig að íbúar gætu sjálfir séð hvaða svæði væri verið að rýma.

Rýmingar eru ákveðnar af Veðurstofu Íslands. Eftir að ákvörðun er tekin á að vera minnst 1-2 tíma fyrirvari þannig bæði íbúar og viðbragðsaðilar geti undirbúið. Slíkt svigrúm á þó ekki við í neyðarrýmingum, eins og gripið var til í nágrenni Starmýrarhúsanna eftir að snjóflóðið var fallið. „Ég held að þessar rýmingarnar hafi gengið eins hratt og hægt, miðað við að alls staðar var ófærð.“

Ekki tekist að laga SMS-kerfið


Íbúar í Neskaupstað hafa bent á að SMS-boð um rýmingar hafi borist sumum og sumum ekki. Fulltrúar almannavarna á fundinum svöruðu því til að vandamálið væri tæknilegs eðlis og ekki hefði tekist að ráða fram úr því þrátt fyrir tilraunir, en sami galli kom upp í skriðuföllunum á Seyðisfirði 2020. SMS-kerfin séu hins vegar ekki skilgreint sem neyðarkerfi heldur símkerfið sjálft og því mismunandi kvaðir á rekstraraðilum.

Hreinsunarstarf á lokametrunum


Hreinsunarstarf eftir snjóflóðin í Neskaupstað gengur vel, samkvæmt upplýsingum frá Fjarðabyggð. Verið er að ljúka við að tæma út úr íbúðum sem snjóflóðið lenti á. Hreinsun er á lokametrunum og verið að týna upp smábrot sem koma undir snjónum. Þá er búið að bræða snjó úr körum og gámum sem munir voru settir í við hreinsunina strax eftir flóðin þannig að íbúar geti farið í gegnum þá.

Mynd: Hafliði Hinriksson/Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.