Rúta með ferðamönnum lenti aftan á snjóplóg

Björgunarsveitir eru á leiðinni í Víðidal á Fjöllum þar sem rúta með erlendum ferðamönnum ók aftan á snjómoksturstæki á þriðja tímanum í dag. Enginn mun vera alvarlega slasaður eftir slysið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunin á Egilsstöðum er enginn lífshættulega slasaður en tilkynnt var um slys á einum farþega og um fimm sem meiðst hafi minniháttar. Almennt hafi allir það þokkalega.

Um borð í rútunni voru 25 ferðamenn frá Tævan. Búið er virkja almannavarnir og aðgerðastjórnir. Verið er að undirbúa fjöldahjálparstöð á Egilsstöðum og þangað er von á fólkinu í kvöld.

Björgunarsveitir af Norðausturlandi eru á leiðinni á staðinn. Nánari upplýsinga er von þegar þær verða komnar.

Aðstæður á leiðinni eru mjög erfiðar. Bæði björgunarsveitarbílar og sjúkrabíll hafa farið út af á leið á slysstað en engin frekari slys hafa orðið á fólki.

Vegagerðin er búin að loka veginum. Lögreglan beinir þeim tilmælum til ökumanna að hugsa sig tvisvar um áður en farið er af stað en færð er víða vond á Austurlandi, hált, hvasst og blint.

Mynd úr safni. Mynd: Nikulás Bragason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar