„Ríkir mega verða ríkir en þurfa ekki að verða ógeðslega ríkir á okkar kostnað“

Fjármunum í sjávarútvegi er ekki dreift til almennings. Ekki á að vera hættulegt að breyta kerfinu með að setja allan afla á markað segir frambjóðandi Pírata í Norðausturkjördæmi. Frambjóðandi Framsóknarflokksins segir að stíga verði varlega til jarðar í aðalatvinnugrein Austfjarða.


Ekki þarf að koma á óvart að sjávarútvegsmáli hafi verið til umræðu á framboðsfundi sem haldinn var á vegum nemenda í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað í gær. Frambjóðendur voru þar sérstaklega spurðir út í stuðning sinn við uppboðsleið á afla og hví þeir vildu „kollvarpa“ kerfinu.

Píratar hafa barist hvað harðast fyrir að þessi leið verði farið. Gunnar Ómarsson, sem skipar þriðja sætið á þeirra lista, kvaðst óhræddur við að fara hana.

„Það er miklu meiri peningur í sjávarútveginum en dreift er til almennings. Því finnst mér þetta hræðsluáróður. Gjöldin hafa verið lækkuð ár frá ári og því ætti að vera hægt að hækka þau mikið meira.

Þetta snýst ekki um að setja neinn á hausinn. Ríkir mega alveg vera ríkið. Þeir þurfa bara ekki að vera ógeðslega ríkir á okkar kostnað.“

Byggðir landsins héldu uppi hagræðingunni

„Þetta er ekki róttæk aðgerð, það veltur á því hversu hratt farið er í hana,“ sagði Logi Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar.

„Byggðir landsins héldu uppi hagræðingu kvótakerfisins sem nauðsynlegt var að koma á út frá umhverfisþættinum. Í kjölfarið hafa byggst upp sterk fyrirtæki. Við eigum eftir síðasta þáttinn sjálfbærninni sem er félagslegi þátturinn og við viljum að fólkið í landinu njóti auðlindanna.“

Hann hafnaði því að til stæði að „ræna“ peningum af útgerðinni. Logi talaði fyrir því að í stað þess að 90% færu til útgerðarinnar yrði tekið upp svipað fyrirkomulag og hjá norska olíusjóðnum þar sem sjóðurinn tekur til sín 60-70% tekna af auðlindinni en þau fyrirtæki sem hana nýta afganginn.

Kerfið ekki óbreytanlegt

Borgfirðingurinn Arngrímur Viðar Ásgeirsson, sem er í þriðja sæti hjá Bjartri framtíð, sagðist skilja spurninguna vel þar sem Austfirðingar lifi á sjávarútvegi. Hann lýsti yfir áhyggjum af áhrifum gengisbreytinga og framtíð minni fiskvinnsla svo sem á Breiðdalsvík og Djúpavog. „Við boðum ekki stökkbreytingar en viljum að málið sé skoðað og byggð upp raunhæf auðlindarenta.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, sagið sjávarútvegskerfið ekki óumbreytanlegt fremur en önnur. „Þetta snýst um útfærslur. Við eigum ekki að vera lokuð í að breyta kerfum.“

Sigurður Eiríksson, oddviti Dögunar, sagði tilraun Færeyingar með uppboð aflaheimilda áhugavert. Hreyfingin vilji að heimildirnar séu í eigu þjóðarinnar og renta af þeim verði „eftir í heimabyggð.“

Uppboðsleiðin út í hött

Þorsteinn Bergsson frá Alþýðufylkingunni hafnaði uppboðsleiðinni alfarið með orðunum að hún væri „út í hött. „Hún gæti sett mörg fyrirtæki á hliðina. Verðmæti eignfærðra heimilda upp á 250 milljarða myndi hverfa út úr efnahagsreikningnum.

Við viljum innkalla allan kvóta á einum degi og úthluta aftur til þeirra sem veitt hafa upp í hann. Að því loknu verður nóg eftir til að úthluta til byggðanna.“

Minni útgerðir ráða ekki við veiðileyfagjöldin

Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna vildu fara varlegar í sakirnar. „Þetta kerfi hefur þróast í 25 ár og er grundvallardæmi í íslensku hagkerfi og stöðugleika. Þetta snýst um hámarksverðmætasköpun og hverjir geti staðið undir veiðileyfagjöldunum. Það eru 25 stærstu fyrirtækin, þau minni ráða ekki við þetta.“

Hann benti á að síðustu ár hefðu uppsjávarveiðar haldið fyrirtækjunum uppi. Það gæti breyst fljótt. Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki mótfallinn veiðigjöldum en um þau verði að vera sátt.“

Örvar Jóhannsson, sjöundi maður af lista Framsóknar flokks sagði að ekkert væri til staðar sem bannaði breytingar á kerfinu. „Það verður hins vegar að stíga varlega til jarðar, sérstaklega í þessari aðalatvinnugrein okkar

Ég held að það endurnýjun og viðhald sé ekki jafn dýrt í nokkurri annarri atvinnugrein og óvíða er meiri endurnýjun í flota og við höfum séð hér og sjáum áfram á næstu mánuðum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.