Ríflega 500 Stöðfirðingar krefjast nýs hraðbanka

Forsvarsmenn Íbúasamtaka Stöðvarfjarðar afhentu útibússtjóra Landsbankans á Reyðarfirði í morgun lista með 520 undirskriftum. Þess er krafist að nýr hraðbanki verði settur upp á staðnum í stað þess sem lokaður var á vormánuðum.


Íbúarnir gagnrýna ríkisbankann fyrir að skerða enn frekar þjónustu á staðnum sem verulega hafi verið dregið úr síðustu ár. Lokun hraðbankans er fordæmd og þess krafist að nýr verði settur upp.

„Þetta hefur þær afleiðingar að íbúar og ferðamenn hafa ekki aðgang að reiðufé,“ segir Þórarinn Elí Helgason, formaður íbúasamtakanna.

„Íbúar þurfa oft reiðufé og ferðamenn treysta ekki öllum posum. Það er því heftandi fyrir bæjarfélagið að hafa engan hraðbanka.

Þetta snýst líka um sjálfsímynd bæjarbúa, að þeir hafi aðgengi að sömu þjónustu og aðrir. Við erum jafn gildir þegnar.“

Í stað hraðbankans samdi Landsbankinn við verslunar- og veitingastaðinn Brekkuna um að afgreiðslu reiðufjár. Hún afmarkast af opnunartíma staðarins auk þess sem gagnrýnt hefur verið að það tryggi ekki eðlilega persónuvernd í bankaviðskiptum.

Bankinn hefur í svörum sínum bent á bankaviðskipti þróist sífellt í átt að rafrænum viðskiptum og dregið hafi úr notkun hraðbankans á Stöðvarfirði. Gamli hraðbankinn hafi verið úrskurðaður ónýtur og því þurft að finna nýja lausn.

Þórarinn Elí segir bilaðan bankann hafa dregið úr viðskiptum. „Bankinn var vanhirtur síðustu misseri sem skýrir að hluta til þessa litlu notkun. Hann gleypti kort eða skilaði bara 500 köllum sem rýrði traust manna á honum.“

Fjórar vikur eru síðan reiðufjárafgreiðslan í Brekkunni tók til starfa. Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans segir það miður ef íbúar á Stöðvarfirði séu ósáttir við þá lausn.

„Við töldum að með því að semja um reiðufjárafgreiðslu á Stöðvarfirði væri hægt að fullnægja þörf heimamanna og gesta fyrir aðgang að reiðufé, m.a. í ljósi þess að notkun landsmanna á reiðufé hefur farið minnkandi um leið og notkun á greiðslukortum og net- og farsímabönkum hefur aukist.

Með samningi um reiðufjárafgreiðslu var líka talið að styðja mætti við rekstur verslunar á staðnum, en bankinn greiðir versluninni þóknun vegna þjónustunnar.“

Hann segir að rætt hafi verið við bæði Íbúasamtökin og bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð. Til greina komi að endurskoða stöðuna reynist reiðufjárafgreiðslan óviðunandi lausn „hvort sem það er vegna þess að hún svarar ekki þörfum viðskiptavina eða ef reynslan leiðir í ljós slíkir að annmarkar eru á afgreiðslunni að ekki verði við unað, þá sé bankinn tilbúinn til að endurskoða ákvörðun sína.

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að veita góða þjónustu um allt land. Alls eru útibú og afgreiðslur bankans 37 talsins, þar af 30 utan höfuðborgarsvæðisins. Landsbankinn rekur víðfeðmasta útbúa- og hraðbankanet íslenskra banka. Á Austurlandi rekur Landsbankinn nú 7 hraðbanka og 8 útibú og afgreiðslur, auk þess sem reiðufjárafgreiðsla er á Stöðvarfirði.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.