Ríflega 300 farþegar í fyrstu sumarferð Norrænu

Vel gekk að taka á móti Norrænu á Seyðisfirði í morgun í fyrstu ferð hennar á sumaráætlun. Ríflega 300 farþegar komu með henni til landsins.

„Þetta gekk mjög vel, fór í raun fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Árni Elísson, tollvörður á Seyðisfirði.

Norræna lagðist að bryggju um klukkan hálf níu í morgun og var farin frá Seyðisfirði tveimur tímum síðar, eins og hún gerir á sumaráætlun.

Með henni komu ríflega 100 bílar og rúmlega 300 farþegar. Ferðin telst ekki stór miðað við fyrstu sumarferðir fyrir Covid-faraldurinn en farþegum Norrænu hefur fjölgað jafnt og þétt í síðustu ferðum og er von á að svo verði áfram.

Einn farþegi greindist með Covid-19 veiruna við skimun í Hirthals við komuna um borð. Viðkomandi ásamt tíu ferðafélögum voru í einangrun alla siglinguna. Hópurinn er nú allur á sóttvarnahótelinu á Hallormsstað en verið er að kanna hvort smitið sé gamalt. Ekki er talin hætta á að smit hafi getað borist frá hópnum til annarra farþega.

Lögreglan yfirferð bólusetningar- og sóttvarnavottorð farþega. Það var gert á Hafnarbakkanum í sólskini í morgun. Verið er að leggja drög að betri aðstöðu fyrir athuganirnar og vonast til að hún verði tilbúin fyrir næstu ferð.

Mynd: SigAð


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.