Reyna að tryggja skriðusvæðið fyrir vindhvellinn

Verktakar sem vinna að hreinsun eftir skriðuföllin á Seyðisfirði hafa seinni partinn í dag reynt að takmarka fok á braki í skriðunni fyrir mikið norðvestan hvassviðri sem spáð er í nótt og fyrramálið. Ekki er talið að óveðrið skapi skriðuhættu á ný.

Hreinsunarstarfið hefur gengið ágætlega og seint á miðvikudag tókst að koma tækjum í gegnum skriðuna. Síðan hefur verið unnið að því að hreinsa akstursleiðina og breikka.

Þá er verið að grafa upp með farvegi Búðarár til að koma ánni aftur í sinn farveg og búa til leiðiskurði ef vatn eða minniháttar aurspýjur koma niður ána.

Reynt að varna frekara tjóni

Þegar líða tók á daginn færðist kraftur í að tryggja svæðið fyrir mikið hvassviðri í nótt og á morgun. Vegna þess hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun frá því klukkan þrjú í nótt til 18 á morgun.

Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi og vettvangsstjóri, segir skipta miklu máli að koma í veg fyrir að vindurinn taki með sér brak úr skriðunni sem þá geti valdið frekara tjóni.

„Við búumst við heljarinnar vindhvelli. Við erum að gera ráðstafanir til að fá ekki verra ástand eftir veðrið. Við höfum verið að nota tækin til að hífa stóra og þunga stálbita ofan á rústir. Líklega fellum við það sem eftir stendur af Silfurhöllinni.“

Erfitt að vinna í myrkri

Jens segir óvíst hve lengi verði unnið í kvöld. „Við eigum eftir að sjá hvort við verðum að fram í myrkur. Þá eru aðstæður orðnar erfiðar, það er verið að vinna í vinnuljósum frá vélum sem eru á hreyfingu og við slíkar aðstæður er hættulegt að fara upp á rústirnar.

Við gerum okkur grein fyrir að við sendum engan inn á þetta svæði eftir að veðrið skellur á. Þess vegna mælumst við til þess með íbúa að þeir geri sér grein fyrir hættunni við að vera á þessu svæði í miklu roki. Þótt menn telji sig vera búna að gera ráðstafanir hefur náttúran sýnt að hún er sterkari en maður heldur.“

Engar áhyggjur af skriðum

Við fyrstu sýn mætti ætla að vindáttin, innan fjörðinn, myndi frekar dreifa braki frá byggðinni en inn í hana. Málið er ekki svo einfalt. „Kunnugir menn segja mér að þetta fari eftir hversu norðanstæður vindurinn verður og hvernig hann slær niður í fjörðinn. Ef hann er af norðvestan, eða norðnorðvestan getur verið misvindasamt, einkum austarlega í bænum þar sem stóra skriðan féll og slegið til baka. Við berum fulla virðingu fyrir þessu veðri og kvíðum því.“

Aðspurður segir Jens þó að engar líkur séu taldar á að óveðrið valdi skriðuhættu. „Við höfum engar áhyggjur af skriðum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.