Reykjavíkurflugvöllur skal vera áfram þar sem hann er

Frambjóðendur í Norðausturkjördæmi eru á einu máli að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sínum stað. Margir þeirra hallast að því að ríkið þurfi að grípa inn í að tryggja veru vallarins til lengri tíma.

Spurt var út í framtíð flugvallarins á framboðsfundi Austurfréttar/Austurgluggans í Valaskjálf á miðvikudagskvöld.

„Við viljum flugvöllinn áfram í Reykjavík nema önnur snilldarlausn, sem ekki er augljós, komi fram,“ sagði Albertína Friðbjörg Elíasdóttir frá Samfylkingunni.

„Bækistöðin á að vera í Vatnsmýrinni meðan ekki er annar kostur. Keflavík er ekki valkostur fyrir innanlandsflugið,“ sagði Einar Brynjólfsson, Pírötum.

„Það er mikilvægt að Reykjavíkurflugvöllur fái stöðuleyfi til langrar framtíðar. Það er ómögulegt að hafa fallöxina yfir honum,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.

„Hann á að sjálfsögðu að vera í Vatnsmýrinni. Það er fullreynt að borgaryfirvöld láti hann í friði og það er kominn tími til að grípa inn í,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson frá Miðflokknum.

Jafnrétti til búsetu

Halldór Gunnarsson frá Flokki fólksins talaði um „aðför Samfylkingarinnar og vinstri blokkarinnar sem ræður Reykjavíkurborg,“ gegn flugvellinum. Sú aðför „gegn vilja landsbyggðarinnar ætti ekki að vera í þagnargildi.“

Þórunn Egilsdóttir, Framsóknarflokki, sagði að völlurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni, málefni hans snéru að jafnrétti til búsetu.

„Meðan ekki eru aðrir kostir verði flugvöllurinn í Vatnsmýrinni,“ sagði Benedikt Jóhannesson frá Viðreisn.

Hugað að millilandaflugi

Arngrímur Viðar Ásgeirsson frá Bjartri framtíð minntist á að nokkrir markhópar væru fyrir innanlandsflugið, hægt yrði að nálgast ýmsa þjónustu snöggt til Reykjavíkur og fljúga þangað sjúkraflug en hann vakti einnig máls á nauðsyn beinnar tengingar við Keflavík.

Sigmundur Davíð hvatti til þess að tekinn yrði hluti hagnaðar ISAVIA af Keflavíkurflugvelli og hann nýttur í að byggja upp alþjóðaflug um fleiri áfangastaði.

Mikill stuðningur við niðurgreiðslu innanlandsflugs

Töluverð umræða var einnig um niðurgreiðslur á innanlandsflugi, einkum skosku leiðina og virtust frambjóðendur sömuleiðis á einu máli um hana. „Það er lítill fórnarkostnaður fyrir hvað það mun skila okkur,“ sagði Arnbjörn Sveinsdóttir frá Sjálfstæðisflokknum.

Bæði Sigmundur og Þorsteinn Bergsson frá Alþýðufylkingunni vöruðu við að slíkir styrkir enduðu í sjóðum flugfélaga en ekki vösum neytenda. Þorsteinn sagðist leggjast gegn beinum styrkjum „til einkafyrirtækja í hagnaðarsókn.

Markaðshyggjan er orðin svo inngróin í menn. Í stað þess að greiða flugið niður viljum við að ríkið sjái um flugreksturinn sjálft.“

Steingrímur J. minnti á kosti eins og að fella niður lendingargjöld eða endurgreiða virðisaukaskatt. Nefnd sem hann sat í taldi þannig hægt að lækka flugverð um allt að fimmtung.

Þá varaði Benedikt við hugmyndum um komugjöld á erlenda ferðamenn með flugi. „Þau þurfa að leggjast á allt flug og verða þar með að landsbyggðarskatti sem við erum alfarið á móti.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.