Reyðarfjarðarlína ekki fjárheld

Reyðarfjarðarlína, sauðfjárveikivarnagirðing sem skilur að Austfjarðahólf og Suðurfjarðahólf, er ekki fjárheld. Illa hefur gengið að fá fé til viðhalds undanfarin ár. Átak var gert í að laga girðinguna i sumar en enn er nokkurt verk óunnið.

„Það hefur gengið herfilega að fá fé til viðhalds girðinga undanfarin ár. Það var fyrst núna í vor sem eitthvað almennilegt kom. Girðingin lá í raun orðið niðri og kindurnar gátu ýmist gengið yfir hana eða framhjá,“ segir Freyr Ævarsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá Múlaþingi.

Samkvæmt reglugerð liggur línan úr Reyðarfirði upp með þjóðvegi og upp í Áreyjatind, þaðan yfir í Sandfell í Skriðdal og þaðan niður í Gilsá og Grímsá. Að norðanverðu heldur hún áfram upp á Hallormsstaðarháls og tengist þar öðrum girðingum sem mynda heild yfir að Jökulsá í Fljótsdal.

Hótuðu að rukka ríkið fyrir að fjarlægja girðinguna

Lögum samkvæmt er það ríkissjóður sem greiðir kostnað við viðhald aðalvarnarlína sauðfjárveikivarna og er Reyðarfjarðarlína meðal þeirra. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið veitti fé til viðhalds girðingarinnar í vor eftir þrýsting frá bæjarstjórnum Fljótsdalshéraðs og Fjarðabyggðar.

Í bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs segir að hlutar girðingarinnar hafi verið orðnir hættulegir búfé, villtum dýrum og fé auk þess sem sóttvarnagildi hennar sé ekkert orðið. Hótaði sveitarfélagið að láta fjarlægja girðinguna á kostnað ríkisins ef ekki yrði brugðist við.

Úrbætur en enn kaflar eftir

Þorsteinn Bergsson, dýraeftirlitsmaður hjá Matvælastofnun á Austurlandi, segir að talsverður árangur hafi náðst í sumar. „Reyðarfjarðarlínan var orðin meira og minna í lamasessi. Það var gert við sex km kafla frá Reyðarfjarðarbotni að Fagradalsá. Girðingin var líka illa farin uppi á Hallormsstaðarhálsi en er orðin betri núna. Það var mjög til bóta að þessir kaflar voru lagaðir,“ segir hann.

Enn eru þó eftir gloppur í girðingunni, einkum í landi Áreyja í Reyðarfirði. Þorsteinn segir að girðingin hafi farið niður í skriðuföllum en ekki verið endurreist árum saman. Þar hafa ekki náðst samningar við landeiganda um legu girðingarinnar, sem eins og er skiptir í raun jörðinni í tvennt.

„Við erum að skoða hvort hægt sé að velja annað girðingarstæði. Girðingin er ekki til neins ef ekki tekst að loka henni þarna því þarna verður blöndun á fé. Ég er er bjartsýnn á að það gangi næsta sumar, að því gefnu að við náum samningum,“ segir Þorsteinn.

Annar kafli sem þarf að skoða er úr Sandfelli og niður með Gilsá. Litið hefur verið svo á að áin sé fjárheld en Þorsteinn segir vart svo vera. „Við viljum girða nýjan tveggja kílómetra kafla ofan úr fjalli og niður á þjóðveg. Það var ekki farið í þennan kafla í sumar enda nokkuð mikil framkvæmd en landeigendur eru jákvæðir.“

Aðrar línur eystra í lagi

Matvælastofnun hefur eftirlit með varnargirðingunum og gerir tillögur til ráðuneytisins um hvar viðhalds sé þörf. Úttekt var gerð á Reyðarfjarðarlínunni fyrir tveimur árum sem setti aukinn þrýsting á aðgerðir. Þorsteinn tekur undir með Frey að ónógu fé hafi verið veitt til viðhalds undanfarin ár og vart verið ráðist í nema það allra nauðsynlegasta eða átak í ákveðnum girðingum.

Þorsteinn segir að minni útbreiðsla sauðfjárpesta eins og riðu gæti hafa orðið til þess að slakað hafi verið á, en Reyðarfjarðarlínan skipti máli því enn séu í gildi takmarkanir vegna riðu í Suðurfjarðahólfinu. Athyglin beinist nú að varnarlínunum á ný vegna riðutilfella í Skagafirði. Þorsteinn segist almennt telja ástand annarra varnargirðinga eystra viðunandi.

Héraðshólf er á milli Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal. Árnar eru ekki lengur fjárheldar eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar en þar sjá verktakar á vegum Landsvirkjunar um viðhald varnargirðinga sem þurfti að koma upp og segir Þorsteinn þá almennt hafa staðið sig ágætlega. Jökulsá á Fjöllum markar síðan næstu mörk í norðri, utan um Norðausturhólf.

Í suðri marka Hamarsdalur og Hamarsá mörk Suðurfjarðahólfs og Suðausturhólfs. „Hamarsánni er ætlað að halda inn undir jökul. Það er engin girðing inni á öræfunum en ég hef ekki heyrt af verulegum vandamálum með þessa línu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.