Rafeyri kaupir Rafmagnsverkstæði Andrésar

Fyrirtækið Rafeyri frá Akureyri hefur keypt Rafmagnsverksvæði Andrésar á Eskifirði. Gert er ráð fyrir að verkstæðið verði að mestu rekið með óbreyttum hætti.

Andrés Elísson stofnaði verkstæðið árið 2002 en hann lést af slysförum í ágúst. Rafeyri kaupir fyrirtækið af ekkju hans, Svönu Guðlaugsdóttur.

Í tilkynningu kemur fram að lykilstarfsmönnum hafi verið boðið að gerast meðeigendur og vonist Rafeyri eftir að geta eflt fyrirtæki og stækkað í samvinnu við þá. Gunnar Valur Eyþórsson kemur austur frá Rafeyri til að stýra rekstrinum á Eskifirði.

Rafmagnsverkstæði Andrésar hefur sinnt almennri rafverktöku fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir í Fjarðabyggð undanfarin 18 ár, en stærstu viðskiptavinirnir hafa verið tengdir útgerð og fiskvinnslu á svæðinu.

„Gott samstarf við heimamenn er stór þáttur í að vel gangi og munu eigendur Rafmagnsverkstæðis Andrésar leggja sig fram um að skila góðu verki og veita góða þjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Frá undirritun samninganna: Frá vinstri: Páll Birgir Jónsson, Svana Guðlaugsdóttir, Ágúst Heimir Ólafsson, Gunnar Valur Eyþórsson, Kristinn Hreinsson, Jónas M. Ragnarsson. Mynd: Rafeyri

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar