Ráðherra vill kanna hvort Hringvegurinn eigi að liggja um firði

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, hefur lagt til við Vegagerðina kannað verði hvort færa eigi þjóðvegur númer eitt, Hringveginn, af Breiðdalsheiði yfir á firði.


Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að ráðherrann hafi lagt fram hugmyndina til kynningar en Vegagerðin ákveður legu Hringvegarins.

Í dag liggur vegurinn frá Egilsstöðum upp Skriðdal, yfir Breiðdalsheiði og þaðan út að Breiðdalsvík en samkvæmt nýju skilgreiningunni myndi vegurinn liggja yfir Fagradal, í gegnum Fáskrúðsfjarðargöng og eftir Suðurfjarðavegi að Breiðdalsvík.

Í tilkynningunni segir meðal annars að Hringvegurinn sé jafnan skilgreindur sem aðalleið, það er sú sem sé greiðfærust og þá með mestri vegaþjónustu.

Takmörkuð vetrarþjónusta hefur verið um Breiðdalsheiði síðustu ár og einungis gert ráð fyrir að leiðin sé mokuð á meðan hægt er að hausti og vetri. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að bæta merkingar eru reglulega óskað eftir aðstoð við ferðamenn í vanda á heiðinni. Þá er um að ræða einn af fáum malarköflum sem eftir eru á þjóðveginum. 

Fjarðaleiðin er hins vegar öll malbikið og mokuð alla daga vikunnar. Hún er tíu kílómetrum lengri miðað við fjarlægðina milli Egilsstaða og Breiðdalsvíkur. Suðurfjarðavegurinn, einkum milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar, hefur í úttektum verið nefndur einn hættulegasti vegkafli landsins.

Ákvörðun Vegagerðarinnar verður tekin í samráði við innanríkisráðherra.

 Breytt 21:50: Skerpt á í inngangi og fyrirsögn að ráðherra leggur fram hugmynd til kynningar en ekki hreina tillögu um að vegurinn verði færður.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.