Póstkosning hjá Framsóknarflokknum

Póstkosning verður notuð til að velja í efstu sætin á lista Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar í lok september á næsta ári. Fimm einstaklingar hafa þegar lýst yfir framboði.

Aðferðin við valið var ákveðin á kjördæmisþingi flokksins í síðasta mánuði, að því er fram kemur á Kosningasögu.

Póstkosning verður um sex efstu sætin. Atkvæðagreiðsla hefst 1. mars og stendur út allan mánuðinn. Síðasti dagur mánaðarins er jafnframt síðasti virki dagur fyrir páska. Niðurstaða á að liggja fyrir 17. apríl.

Fimm einstaklingar lýstu yfir framboði á kjördæmisþinginu. Þar eru báðir þingmennirnir, annars vegar Þórunn Egilsdóttir frá Vopnafirði sem sækist eftir að leiða listann áfram og svo Líneik Anna Sævarsdóttir frá Fáskrúðsfirði.

Að auki hafa Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður úr Grýtubakkahreppi, Ingibjörg Isaksen bæjarfulltrúi á Akureyri og Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps lýst yfir framboði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar