Pólverjar líta á sig sem hluta af samfélaginu

„Allir viðmælendur upplifðu sig sem hluta af íslensku samfélagi að einhverju leyti og töldu að heimamenn hefðu tekið vel á móti þeim við komuna til landsins,“ segir Kjartan Þór Ingason, sem rannsakaði upplifun og sjálfsmynd Pólverja á Austurlandi í lokaritgerð sinni Samheldni og sundrung í Félagsfræði við Háskóla Íslands í vor.


Kjartan Þór segir markmið rannsóknarinnar hafa verið að kanna upplifun og sjálfsmynd pólskra innflytjenda á Austurlandi með áherslu á fjóra afmarkaða þætti: flutninginn til Íslands og aðlögun inn í samfélagið, sjálfsmynd, upplifun og viðhorf viðmælenda, atvinnuferli og markmið viðmælenda varðandi starfsframa og svo viðhorf foreldra um mikilvægi menntunar og velgengni barna sinna í nýju landi.

Upplifa litla tengingu við aðra Pólverja á svæðinu
„Ólíkt ummælum viðmælenda í breskum rannsóknum þar sem þátttakendur upplifðu mikla skömm fyrir uppruna sinn og óttuðust að vera stimplaðir sem glæpamenn út frá gjörðum samlanda sinna, upplifðu viðmælendur mínir á Austurlandi mikla tengingu við heimamenn í Fjarðabyggð og töldu sig ekki verða fyrir fordómum.

Samkvæmt niðurstöðum upplifðu viðmælendur mínir litla tengingu við aðra Pólverja á svæðinu heldur töldu sig í mun betri samskiptum við íslenska íbúa í sveitarfélaginu. Að mati viðmælenda minna er lítill samhugur meðal Pólverja á Austurlandi sem birtist í litlum samskiptum meðal einstaklinga innan hópsins auk þess að lágt hlutfall einstaklinga innan hópsins bjóða hjálparhönd að fyrra bragði sem var talið merki um andfélagslega hegðun. Þegar leitast var eftir ástæðum viðmælenda fyrir jákvæðara viðhorfi gagnvart Íslendingum heldur en gagnvart öðrum Pólverjum var talað um mikinn samhug meðal Íslendinga sem innlimuðu pólska einstaklinga í sitt samfélag, meðan annars í formi aðstoðar við tungumálið og atvinnuleit, náin vinatengsl og stuðning á erfiðum tímum.

Út frá þessum niðurstöðum tel ég neikvætt viðhorf pólskra viðmælenda minna í garð samlanda sinna ekki litast af ótta við stimplun gagnvart sjálfum sér, heldur fyrst og fremst út af skorti á félagslegri tengingu meðal einstaklinga innan pólska samfélagsins á Austurlandi,“ segir Kjartan Þór.

Íslenskukunnátta skiptir máli
Kjartan Þór segir einnig að viðmælendur hans telji íslenskukunnáttu mikilvægan þátt í aðlögun að samfélaginu og allir höfðu þeir nýtt sér þau bjargráð sem stóðu til boða, eins og niðurgreiðslu á íslenskunámi og aðstoð frá vinnufélögum og vinum. „Að þeirra mati er íslenskukunnátta lykilatriði fyrir árangur á íslenskum vinnumarkaði.“

Mikill munur á atvinnutækifærum kynjanna
Kjartan Þór segir að áberandi munur hafi komið fram á atvinnutækifærum milli kynjanna. „Allir karlkyns viðmælendur mínir fengu störf í samræmi við sína menntun á meðan konurnar fóru í einföld störf sem samræmdist ekki þeirra menntun og getu. Út frá þessum gögnum tel ég að tveir þættir standi upp úr til útskýringar. Í fyrsta lagi voru allir karlkyns viðmælendur mínir með iðnmenntun sem var sérstaklega eftirsótt á íslenskum vinnumarkaði fyrir efnahagskreppuna 2008 sem leiddi af sér leit eftir iðnaðarmönnum út fyrir landsteinana. Í öðru lagi eru mismunandi kröfur um tungumálakunnáttu eftir starfsgreinum, í bókhaldsvinnu og störfum tengdum tölvutækni eru gerðar ríkari kröfur um íslenskukunnáttu heldur en í störfum í iðnaði. Af þeim sökum var tungumálamúrinn stór hindrun í starfsframa kvenkyns viðmælenda minna sem höfðu slíka menntun að baki. Á sama tíma gátu viðmælendur mínir sem voru karlkyns og iðnmenntaðir gengið beint í iðnaðarstörf þrátt fyrir að geta ekki tjáð sig á íslensku þar sem sá starfsvettvangur gerði minni kröfur um íslenskukunnáttu og bauð starfsmönnum að læra tungumálið samhliða vinnunni. Þó ber að varpa fram möguleika um hvort samfélagið sækist einungis eftir innflytjendum í þau störf sem innfæddir hafa ekki áhuga á að vinna, óháð menntun og hæfni innflytjenda. Í slíkum tilfellum er íslenskukunnátta ekki hin raunverulega hindrun gegn starfsmöguleikum innflytjenda heldur hvort innfæddir hafa áhuga á að vinna við tiltekið starf eður ei.“

Líta björtum augum á framtíð komandi kynslóðar
Kjartan Þór segir að við samantekt á þeim þáttum er beinast að foreldrum og upplifun þeirra á menntun og velgengni barna virðist ánægja fjölskyldunnar sem heild hafa áhrif á þá ákvörðun að setjast að í Fjarðabyggð til frambúðar. „Samkvæmt gögnunum eru atriði eins og öruggt samfélag og góður vinskapur meðal barna, óháð íslenskukunnáttu, mikilvægur hluti fyrir vellíðan barna við komuna til Fjarðabyggðar. Þeir foreldrar sem tóku þátt í rannsókninni virðast gera miklar kröfur til menntunar barna sinna og telja að börnin sín standi sig betur en þau sjálf í að aðlagast íslensku samfélagi. Í því ljósi var einnig talað um að góð tungumálakunnátta væri lykilatriði í hversu vel börnin höfðu aðlagast samhliða foreldrum sínum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.