Óvíst um áframhald Ísfisks á Breiðdalsvík

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps hefur áhyggjur af framtíð vinnslu Ísfisks á staðnum. Framkvæmdastjórinn segir forsendur vinnslunnar brostnar nema til komi meiri meðgjöf hins opinbera í formi kvóta eða breyttar reglur.

„Að óbreyttu verðum við ekki með starfsemi á Breiðdalsvík í vetur. Það vantar rekstrargrundvöll til að vinnslan skili upp í kostnað,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks.

Breiðdalshreppur er ekki beinn aðili málsins en hefur í sumar reynt að þrýsta á Byggðastofnun um að auka byggðafestukvóta í 450 tonn. Vonast var til að erindið yrði tekið fyrir á fundi stjórnar stofnunarinnar í síðustu viku en honum var frestað. Í bókun frá síðasta fundi sveitarstjórnar er lýst yfir „miklum áhyggjum af þeirri óvissu sem ríki“.

Ekki trúaður á breyttar reglur

Vinnslan tók til starfa í janúar í fyrra í húsnæði gamla frystihússins. Albert segir að verð á þorski á fiskmörkuðum hafi verið hagstæðara fyrir 2-3 árum þegar vinnslan var undirbúin og gagnrýnir bæði stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi og stærri útgerðir fyrir innrás á fiskmarkaðina.

„Til að við getum haldið áfram þarf annaðhvort meiri meðgjöf frá hinu opinbera eða að reglunum verði breytt og eðlilegri samkeppni komið á í sjávarútveginum. Ég hef ekki trú á að reglunum verði breytt því hagsmunaöfl koma í veg fyrir það og stjórnvöld treysta sér ekki í verkið. Það gengur ekki að hægri hönd stjórnvalda segist vilja hafa byggðafestu meðan sú vinstri vinnur ekki að grunninum.“

Stóru aðilarnir sprengja upp verðið á mörkuðunum

Ísfiskur tilheyrir SFÚ, Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, en vinnslur innan samtakanna kaupa fisk á fiskmörkuðum en gera ekki út eigin fiskiskip. Árið 2012 svaraði Samkeppniseftirlitið erindi samtakanna þar sem þau óskuðu eftir athugun á fjárhagslegum aðskilnaði útgerðar og fiskvinnslu hjá fyrirtækjum sem bæði vinna og veiða og misnotkun þeirra á markaðsráðandi stöðu með að setja verðgólf á fiskmörkuðum. Í áliti sínu beindi eftirlitið tilmælum til ráðherra sjávarútvegsmála til að auka samkeppni í sjávarútvegi.

„Ef allur fiskur væri seldur á markaðsverði, hvort sem um er að ræða innri viðskipti eða milli óháðra aðila, sætu allir við sama borð við að kaupa fisk. Þá værum við ekki í þeirri stöðu að lenda alltaf í samkeppni við þá sem geta í skjóli stjórnvalda tekið allan fisk til sín á verði sem er langt frá að vera markaðsverð.“

Albert segir sjálfstæðu vinnslurnar ekki hafa skipt sér af verðmynduninni fyrr en fiskvinnslur útgerðarfyrirtækjanna fóru að sækja inn á fiskmarkaðina í samkeppni um hráefnið. „Þeir landa fiski 8-9 mánuði á ári á góðu verði en fara svo inn á fiskmarkaðina og sprengja allt í tætlur og höggva þar með í okkar rekstrarstöðu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar