„Óviðunandi ástand fyrir íbúa svæðisins“

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps lýsir þungum áhyggjum af þróun löggæslumála á svæðinu frá Vopnafirði til Raufarhafnar en aðeins einn lögreglumaður hefur verið þar starfandi frá því í vor. Lögreglustjóri segir að um tímabundið ástand sé að ræða sem brugðist hafi verið við.



Hjörtur Davíðsson, lögreglumaður á Vopnafirði, sendi inn erindi sem tekið var til umræðu á sveitarstjórnarfundi Vopnafjarðarhrepps í síðustu viku.

Í bréfi sínu lýsir Hjörtur bágu ástandi löggæslumála á svæðinu. Hann segir aðeins einn lögreglumann vera starfandi á Vopnafirði og hafi það verið á þann veg frá því 1. apríl nú í vor. Á Þórshöfn sé annar lögreglumannanna í ótímabundnu veikindaleyfi þannig að aðeins einn lögreglumaður starfi á þessu svæði í dag og enginn héraðslögreglumaður. „Þegar upp koma forföll hjá starfandi lögreglumönnum á svæðinu frá Vopnafirði til Raufarhafnar er það mannað með einum lögreglumanni eða það jafnvel án löggæslu,“ segir Hjörtur og vitnar einnig í tillögu þingmannanefndar um skiptingu viðbótarfjármagns til löggæslu 2014 en þar hafi komið fram að tveir lögreglumenn skyldu staðsettir á Vopnafirði sem og á Þórshöfn.


Óviðunandi fyrir íbúa svæðisins

Tölvubréf Hjartar var tekið til umræðu og eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða. „Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps lýsir þungum áhyggjum af þróun löggæslumála á svæðinu frá Vopnafirði til Raufarhafnar.

Starfssvæði lögreglunnar á Norðausturlandi er víðfeðmt og langar vegalengdir milli staða. Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps telur það því alls óviðunandi fyrir íbúa svæðisins að lögregluembættinu skuli ekki sköpuð skilyrði til að halda úti viðunandi löggæslu. Sveitarstjórn beinir því til innanríkisráðherra og lögreglustjórans á Austurlandi að tryggt sé að íbúar svæðisins búi við það öryggi sem þeim ber.“



„Um tímabundið ástand er að ræða“

Inger L. Jónsdóttir, lögreglustjóri á Austurlandi, að um tímabundið ástand sé að ræða. "Brugðist hefur verið við með aukinni viðveru lögreglumanns á Vopnafirði með bakvaktargreiðslum og samstarfssamningi milli lögregluembættanna á Austurlandi og Norðurlandi eystra um aukið samstarf til að tryggja frekar öryggi íbúa á svæðinu,“ segir Inger.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.