Ótímabært að afskrifa allar rannsóknir á Drekasvæðinu

Sérfræðingur hjá Orkustofnun segir ekkert hægt að fullyrða um hvort olía finnist á Drekasvæðinu en fyrirtæki séu rög að leggja út í miklar rannsóknir meðan olíuverð er lágt. Aðeins eitt sérleyfi af þremur sem veitt voru til leitar er enn í gildi.


Orkustofnun staðfesti í dag ósk kanadíska olíufyrirtækisins Ithaca Petroelum ehf. um að gefa eftir sérleyfi fyrirtækisins til leitar í samstarfi við Kolvetni ehf, og Petoro Iceland. Áfram er í gildi leyfi sem kennt er við kínverska olíufélagið CNOOC en það er í samstarfi við Eykon ehf og Petoro Iceland sem er í eigu norska ríkisins.

Í tilkynningu stofnunarinnar segir að þótt mælingar bendi til þess að gas eða olía finnist á afmörkuðu svæði innan leitarsvæðisins sé ekki talið þess virði að halda áfram og taka næsta skref.

„Það að Ithaca skili inn sínu leyfi segir ekkert um hvort olía eða ekkert sé á Drekasvæðinu. Það er því algjörlega ótímabært að afskrifa allar rannsóknir þar,“ segir Skúli Thoroddsen, lögfræðingur hjá Orkustofnun.

Hann bendir á að svæði Ithaca hafi verið töluvert erfiðra og þrisvar sinnum minna en það sem CNOOC leitar á. Að taka næsta skref í rannsóknum sé kostnaðarsamt. Grunur verði ekki fullkannaður nema með borunum og hver hola kosti minnst einn milljarð íslenskra króna.

„Ákvörðun Ithaca er skiljanleg. Það eru mikil hraunlög, sem erfitt er að sjá í gegnum, ofan á móðurberginu og miða við aðstæður á olíumarkaði er útlit fyrir að áframhaldandi rannsóknir yrðu mjög áhættusamar með tilliti til kostnaðar. Þarna var leitað á 1000 ferkílómetra svæði en leyfi CNOOC nær yfir 6.500 ferkílómetra.“

Sama leitarskipið var gert út fyrir báða leitaraðila og hafði það viðkomu á Reyðarfirði sumarið 2015 þegar það leitaði. Gögn af svæði CNOOC, sem gaf út að miðstöð þess hérlendis fyrir olíuleit yrði í Fjarðabyggð, eru nokkru jákvæðari.

„Gögnin sem aflað var þá gefa tilefni til að rannsaka ákveðin svæði sem eru talin fýsilegri en önnur. Í ár verða þau gögn fullunnin og í framhaldinu verða teknar ákvarðanir um framhaldið.“

Orkustofnun hefur aðgang að gögnum Ithaca þótt þau séu bundin trúnaði. „Þekking á svæðinu eykst bara og það nýtist til dæmis við leyfisveitingar síðar, þótt þær séu alltaf háðar stefnumörkun stjórnvalda.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.