Óskapnaður að búa til eitt kjördæmi frá Siglufirði austur á Djúpavog

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, segir núverandi kjördæmakerfi hafa dregið úr tengslum þingmanna við fólkið í landinu. Innan sama kjördæmis hafi lent staðir sem eigi lítið sameiginlegt. Miður sé að hugmyndir um millistig stjórnsýslu í landinu hafi aldrei orðið til.

„Í stuttu máli voru gerð hér afleit mistök í sambandi við skipulagsmál og félagsmál í landinu frá fyrri tíð. Sýslu- og kaupstaðaformið var hér ríkjandi lengi vel. Svo fóru menn að þrýsta á um að leggja það niður sem sérstakar einingar og að eftir stæðu bara sveitarfélög.

Ég var mjög á móti þessum breytingum og flutti um það sérstakt frumvarp á þessum tíma, að taka upp sérstakt millistig eða héruð eins og ég kallaði það. Þar var ég að vísa til héraða og fylkja til dæmis í Noregi. Þetta varð mjög afdrifaríkt og vatnaskil að mínu viti því eðlilega kom í kjölfarið pressa á að sameina og stækka sveitarfélögin.

Svo var þetta kórónað 1998 þegar ný kjördæmaskipan var innleidd. Það var hinn versti gjörningur að búa til slíkan óskapnað að henda öllu frá Djúpavogi að Siglufirði undir sama hattinn en þetta var samþykkt með miklum meirihluta á þingi. Hugmyndin var að kjördæmin hefðu álíkan fjölda íbúa því þá hefðu allir fjórir eða fimm flokkar á þingi þá möguleika á innkomu og að eiga þar fulltrúa. Það voru ein helstu rökin, en síðan hefur nú flokkaskipunin breyst verulega.

Þetta veikti fannst mér landið allt og er enn að draga mátt úr landshlutunum. Hvað eiga Akureyri og Egilsstaðir eiginlega sameiginlegt? Eða Akureyri og Seyðisfjörður.

Þetta hefur stórkostlega dregið máttinn úr stjórnmálastarfi í landinu. Þingmennirnir hafa lítil sem engin tengsl við fólkið í kjördæmum þeirra og þeir hafa takmarkað náð að ferðast um kjördæmin sín og hlusta á kjósendur á hverjum stað. Á sínum tíma fórum við reglulega tvisvar á ári í alla kaupstaði og þéttbýli og funduðum með fólki en þetta er að mestu fyrir bí í dag,“ segir Hjörleifur í viðtali við Austurgluggann.

Lítill áhugi á flokkunum í dag


Hjörleifur fæddist á Hallormsstað árið 1935, varð stúdent frá MA og hélt síðan í náttúrufræðinám í Leipzig í Þýskalandi því það var ekki í boði á Norðurlöndunum á þeim tíma. Tilviljunin réði því síðar að hann settist að í Neskaupstað, Kristin kona hans fékk þar vinnu sem læknir.

Hjörleifur hóf hins vegar störf við náttúrufræði og kennslu, kom meðal annars að uppbyggingu Náttúrugripasafnsins. Hann var kjörinn á þing árið 1978 og varð ráðherra í kjölfar kosningasigurs vinstri flokkanna. Hann varð iðnaðarráðherra og síðan óbreyttur þingmaður frá 1983 til 1999.

Hann segir stjórnmálin hafa breyst mikið frá því þegar hann var á þingi. „Undirstaða þessara flokka nútímans er orðin svo veik og sömuleiðis áhugi almennings á að vera þátttakendur í starfi þeirra. Þetta eru allt aðrar stofnanir en áður var.

Þetta á alveg sérstaklega við um Vinstri græna að mínu mati, en auðvitað hefur Sjálfstæðisflokkurinn alla tíð verið laustengdur við hagsmunaöflin. Það er vandfundin svo skýr og föst sýn hjá flokkunum í dag til margra mikilvægra mála.

Ég hef þó að mörgu leyti metið forystu Katrínar Jakobsdóttur öfluga og jákvæða. Ég gef mun minna fyrir stjórn marga annarra síðustu áratugi. Ég hef stutt þetta stjórnarmynstur sem skárri kost en til dæmis samkrull með Samfylkingunni, vegna áhuga þeirra á aðild að Evrópusambandinu. Þar innanborðs eru ríkin ekki sjálfstæð og ESB hefur að mínu mati verið vanskapningur meira og minna alla tíð. Ísland á ekkert erindi þarna inn.“

Bæði meðan þingmennskunni stóð og eftir hana hefur Hjörleifur verið afkastamikill fræðimaður. Hann hefur undanfarin misseri unnið að sinni sautjándu bók sem verður um langafa hans, Sigurð Gunnarsson, sem lengi var prestur á Hallormsstað.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.