Opnun ganganna ekki bara stór áfangi fyrir íbúa Neskaupstaðar

Bæjarfulltrúar í Fjarðabyggð glöddust yfir opnun Norðfjarðarganga og færslu þjóðvegar 1 á síðasta fundi bæjarstjórnar. Þeir telja aðferðafræðina við færslu vegarins vera vegarnesti inn í framtíðina.

„Það er óþarfi að taka fram að þetta er mikill og stór áfangi og það ekki bara fyrir íbúa Neskaupstaðar,“ sagði Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðismanna.

Undir það tók Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks. „Þetta var óskaplega langþráð stund. Nú þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af veðri á Oddskarði þegar farið er á milli. Ég vona að við nýtum þetta sem best til að efla okkar samfélag.“

„Þetta er mikilvægur áfangi eftir áratuga vinnu og þrýsting,“ sagði Eydís Ásbjörnsdóttir frá Fjarðalistanum.

Hún sagði færslu þjóðvegar númer eitt af Breiðdalsheiði niður á firði einnig fagnaðarefni. „Þetta eru framfaraskref í samgöngubótum fyrir íbúa og gesti. Næstu skref eru síðan að bæta vanda Seyðfirðinga og Borgfirðinga.“

Deilt hefur verið á flutning þjóðvegarins. Annars vegar að úttekt sem var til grundvallar ákvörðuninni hafi ekki verið nógu vönduð, annars vegar að hún hafi ekki verið kynnt Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi áður en hún var tekin þótt SSA hefði beðið um hana.

„Það var óskað eftir umsögn. Hún kom og það liggur fyrir niðurstaða. Ég vona að við horfum til framtíðar með að leysa þessi mál á þennan hátt í sem mestri sátt við þá sem með þau fara í stjórnkerfinu.“

Frá opnun Norðfjarðarganga. Mynd: Jens Einarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.