Óhjákvæmilegt að byggðasamlögum fækki með sameiningu sveitarfélaga

Sveitarfélögin á Austurlandi undirbúa yfirtöku á þjónustu Skólaskrifstofu Austurlands frá og með upphafi næsta skólaárs. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir óhjákvæmilegt að byggðasamlögum fækki um leið og sveitarfélögin sem að þeim standa sameinast.

Eins og Austurfrétt greindi frá í síðustu viku ákvað byggðaráð Múlaþings að draga sig út úr Skólaskrifstofunni. Það á sér langan aðdraganda og fyrir tíma Múlaþings höfðu stóru sveitarfélögin tvö, Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð, skoðað möguleikann á að sjá frekar sjálf um þjónustu Skólaskrifstofunnar.

„Þegar við stofnuðum fjölskyldusvið Fjarðabyggðar horfðum við til þess að taka stoðþjónstuna sem Skólaskrifstofan veitir inn á það svið í framtíðinni,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Sveitarfélögin eru nú í viðræðum um hvernig staðið verði að breytingunum, sem þýða endalok Skólaskrifstofunnar í núverandi mynd. Stefnt er að því að yfirfærslan verði þann 1. ágúst.

„Við erum ekki að breyta þjónustunni heldur rekstrarforminu og við vinnum það með Múlaþingi og hinum sveitarfélögunum. Við ætlum að vinna það í góðri samvinnu við hin sveitarfélögin og erum í þeirri umræðu núna.“ segir Jón Björn.

Hann segir fyrirhugaðar breytingar fyrst hafa verið kynntar starfsmönnum á fundi sem haldinn var eftir aðalfund Skólaskrifstofunnar um miðjan nóvember. Yfirmenn fræðslumála hafi síðan hitt starfsmenn aftur í síðustu viku. Það samtal sé áfram í gangi.

Mikil hagræðing orðið eystra síðustu ár

Skólaskrifstofan varð til árið 1996 eftir að grunnskólinn færðist yfir til sveitarfélaganna. Þá voru sveitarfélögin á Austurlandi yfir 20 talsins en eftir tilurð Múlaþings í haust eru þau fjögur.

„Það er óhjákvæmilegt að byggðarsamlögin taki breytingum þegar sveitarfélögunum að baki þeim fækkar. Við það færist hluti samvinnunnar inn í stjórnsýslu viðkomandi sveitarfélags, sem er aftur ábyrg fyrir góðu samstarfi.“

Jón Björn segir erfitt að segja fyrir um hvort fleiri samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Austurlandi stefni í svipaða átt eftir síðustu sameiningar. Ýmsar breytingar á samstarfinu hafi orðið síðustu ár.

„Stoðstofnanirnar eru komnar í Austurbrú og sú stofnun heldur mikið utan um verkefni milli sveitarfélaganna á Austurlandi og ríkisins. Þeir samningar eru öðruvísi á meðan verkefni Skólaskrifstofunnar snúa bara að okkar umhverfi.

Við getum líka nefnt Heilbrigðiseftirlitið en þar eru Hornfirðingar með svo þar eru fleiri á bakvið. Aðrir landshlutar eru enn af ýmsum ástæðum með fleiri byggðasamlög en við. Múlaþing er nýbúið að fara í gegnum sína sameiningu en það hefur komið til tals okkar á milli að fara vel yfir öll mál þegar tækifæri til er til. Ég held að með fækkun sveitarfélaga sé óhjákvæmilegt til framtíðar en verkefnin falli frekar að þeirri stjórnsýslu sem þar er.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.