Óhætt að segja að almenningur veigri sér við að taka flugið vegna hárra fargjalda

Endurskoða þarf ríkisstuðning til reksturs flugvalla þannig að meiri hvati myndist fyrir nýtingu þeirra og gjaldskrár endurspegli raunkostnað. Staðan er ekki þannig í dag, meðal annars vegna hárra fargjalda.


Þetta eru niðurstöður starfshóps um endurskoðun á rekstri innanlandsflugvalla á Íslandi sem innanríkisráðherra skipaði í ágúst í fyrra og skilaði nýverið af sér skýrslu sinni. Í hópnum sátu tveir fulltrúar ráðuneyta og tveir frá Isavia, sem rekur flugvellina. Leitað var til fleiri hagsmunaaðila við gerð skýrslunnar, meðal annars Austurbrúar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Starfshópurinn telur brýna þörf að grípa inn í rekstrarumhverfi innanlandsflugvallanna, meðal annars með því að tryggja að notendafjöld endurspegli raunkostnað. Bent er á að lendingargjöld og farþegagjöld séu fjórum til fimm sinnum hærri í Skotlandi heldur en hér.

Á sama tíma séu notendur vallanna að gera kröfur lengri brautir, fleiri flughlöð og leiðsögn sem ekki þurfi og væri eðlilegra að greidd væru af notendagjöldum.

Ekki markmiðið að spara

Ríkið leggur árlega tvo milljarða til reksturs flugvallanna. Ekki er markmiðið að spara ríkinu fé heldur féð renni frekar til flugvallanna í gegnum hendur flugfarþega eða flugrekenda. Slík breyting myndi auka hvata allra þeirra sem koma að kerfinu til að vinna saman.

Tekin eru dæmi frá bæði Noregi og Skotlandi. Í Noregi eru gjöldin þau sömu á öllum völlum og hagnaður af þeim stærri notaður til að slá á tapið af þeim minni. Í Skotlandi eru farþegar styrktir til að auka nýtingu á fluginu.

Flugvélarnar eru lestir Íslands

Í skýrslunni er bent á að tryggja verði viðunandi nýtingu vallanna til að hámarka samfélagslegan ábata af þeim. Undanfarin tíu ár hafi farþegum í innanlandsflugi hérlendis fækkað um 20% en þeim hafi reyndar fjölgað árin 2015 og 16. Á sama tíma hafi millilandafarþegum fjölgað um 175%. Tækifæri hljóti að vera í fjölgun ferðamanna.

Vellirnir eru sagðir „grundvöllur almenningsflugsamgangna í landinu“ en dýrri í bæði uppbyggingu og rekstri og hamrað á því að áætlunarflugið teljist til almenningssamgangna. Erlendis séu lestakerfi en hérlendis sé flugið „eini samgöngumátinn ef komast þarf hratt og örugglega milli staða.“ Það gegni því „afar mikilvægu hlutverk fyrir landsbyggðina.“

Fargjöld í innanlandsflugi eru hins vegar sögð „það há að óhætt er að segja að almenningur veigri sér almennt við að nota kerfið þrátt fyrir augljósa kosti þess.“

Rekstur flugvallanna í raun ríkisstyrkur við flugið

Reglulegt innanlandsflug er á 13 flugvöllum hérlendis, sé Keflavíkurflugvöllur talinn með. Tveir vallanna eru á Austurlandi, á Egilsstöðum og Vopnafirði. Að auki eru að auki 33 smærri lendingarstaðir hérlendis og sex flugvellir í einkaeigu.

Bent er á að opinberum flugvöllum í Evrópu hafi fækkað verulega á undanförnum árum. Þá hefur ríkið fengið ákúrur frá evrópskum eftirlitsstofnun fyrir niðurgreiðslu til flugvallanna sem sé óheimil. Heimildir eru hins vegar í smíðum um undanþágur fyrir minni velli. Undir þær heimildir myndu allir aðrir velli hérlendis en Keflavík falla.

Engin beinn ríkisstyrkur er við flugleiðina Egilsstaðir-Reykjavík en vakin er athygli á að ríkið styrki flugið óbeint með að taka að sér hluta af rekstrarkostnaði flugvallanna.

Flug til Vopnafjarðar er niðurgreitt samkvæmt þjónustusamningi. Í skýrslunni er talað um að eigi að skoða aðrar aðferðir en samninginn við flug þangað verði alltaf að vera tryggt að farþegar fái nauðsynlega þjónustu.

Engin samkeppni er á flugleiðum innanlands þótt evrópskum flugfélögum sé heimilt að hefja rekstur á grundvelli EES-samningsins.

Nýr samgönguráðherra hefur skipað nýjan starfshóp til að vinna frekar með niðurstöður skýrslunnar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.