Öræfahjörðin í Bókakaffi

Dr. Unnur Birna Karlsdóttir kynnti nýútkomna bók sína, Öræfahjörðin - saga hreindýra á Íslandi, í Bókakaffi á laugardaginn var. 

Bókin, sem er í flokki fræðirita, er mikið verk, 283 blaðsíður og prýdd fjölda ljósmynda, þar á meðal eftir Skarphéðinn G. Þórisson, sem er hreindýrasérfræðingur Náttúrustofu Austurlands.


Unnur Birna flutti í Egilsstaði 2012 þegar hún tók við starfi safnstjóra Minjasafns Austurlands í Safnahúsinu. Hún er doktor í sagnfræði frá HÍ og til fróðleiks má geta þess að doktorsritgerð hennar fjallaði um náttúru og virkjanir, sem var gott veganesti fyrir það sem á eftir kom. Unnur Birna setti upp viðamikla sýningu um hreindýr í Safnahúsinu vorið 2015, sem er samsett úr texta, ljósmyndum og kvikmyndum. Sýningin hefur fengið mikið lof og stendur enn. Sama ár og hreindýrasýningin var sett upp byrjaði Unnur Birna að viða að sér efni í bók um hreindýrin.

„Háskóli Íslands auglýsti til umsóknar rannsóknastöðu á Austurlandi undir þemanu maður og náttúra,“ segir Unnur Birna. „Ég sótti um og fékk stöðuna. Það var nýfenginn áhugi minn á hreindýrunum sem réði því að ég valdi þau sem efnivið í aðalrannsóknaverkefni mitt í þessu nýja starfi. Þetta var mikið verk og hefði aldrei orðið að veruleika nema af því að ég kynntist hér svo góðu fólki, sem hefur aðstoðað mig við heimildaöflun og greitt götu mína. Sérstaklega vil ég þakka manninum mínum, Baldri Pálssyni, sem á mikinn þátt í að hreindýrasýningin og bókin urðu að veruleika.“

Það er Sögufélagið sem gefur bókina út, ritsjóri er Kristín Svava Tómasdóttir. Bók er til í öllum helstu bókaverslunum og á Austurlandi er hún fáanleg í Bókakaffi á Egilsstöðum og í Tónspili á Neskaupstað.

Nánar verður fjallað um Öræfahjörðina í Austurglugganum, sem kemur út á fimmtudaginn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.