Öllum rýmingum aflétt á Austurlandi

Búið er að aflétta öllum rýmingum á Austfjörðum sem gripið var til á laugardagskvöld vegna snjóflóðahættu.

Í morgun var rýmingum aflétt í Neskaupstað en á þriðja tímanum á Seyðisfirði. Þar var rýmingin í norðanverðum firðinum og þurftu íbúar úr þremur húsum við Ránargötu að yfirgefa þau. Óvissustig er enn í gildi á Austfjörðum en hættustigi hefur einnig verið aflétt.

Í yfirliti frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands segir að hlýnað hafi í veðri þannig að bloti sé kominn í snjó í neðri hluta hlíða. Jafnframt hafi dregið úr úrkomu og vindi.

Ekki hafi snjóað mikið í hlíðarnar ofan byggðarinnar í Seyðisfirði um helgina en talsvert kófað og skafið í skafla til fjalla, til dæmis á Fjarðarheiði. Vegurinn þar opnaðist rétt fyrir klukkan eitt en var lokað aftur um klukkustund síðar.

Í morgun sást að fallið hafði allstórt snjóflóð úr Harðskafa í Eskifirði. Snjóflóðið er um mitt fjallið og virðist hafa náð aðeins niður fyrir efsta stallinn neðan við fjallið. Ekki hafa borist fréttir af snjóflóðum ofan Seyðisfjarðar.

Veðrið sem gert hefur Austfirðingum lífið leitt um helgina er ekki að fullu gengið niður en ætti að gera það í fyrramálið. Vegurinn yfir Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði var opnaður rétt fyrir klukkan þrjú í dag en þar er skafrenningur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.