Ögrun er fyrir alla

„Ég hef lengi gengið með þá hugmynd í maganum að reyna að finna einhverja leið til að auglýsa og fá fólk til að heimsækja okkur á Vopnafjörð og sjá hversu fjölbreytta og skemmtilega nátturu fjörðurinn býður uppá,“ segir Bjarney Guðrún Jónsdóttir, en hún stendur fyrir útivistarratleiknum Ögrun á Vopnafirði í næstu viku.



„Ég veit ekki til þess að þessi hugmynd sé notuð annars staðar og mér fannst þetta vera eitthvað nýtt sem gæti hugsanlega laðað til okkar fólk. Á íbúaþingi sem haldið var á Vopnafirði síðasta haust steig ég upp í hugmyndavinnu og setti fram hugmynd um ferðatengdan ratleik, Ögrun. Hugmyndinni var vel tekið og í vetur hef ég verið að vinna með hana og reynt að finna út hvernig væri best að vinna þetta,“ segir Bjarney. 

Gull- silfur og bronshringur
Eftir að hafa ráðfært sig við fleiri varð niðurstaðan sjálfbær myndaleikur sem skiptist í þrjú erfiðleikastig; gull-, silfur- og bronshring. „Í hverjum hring á að taka myndir af átta áhugaverðum stöðum og leikurinn gengur út á það að liðin eiga að finna þessa staði og taka eins mynd með sínu liði inná og pósta henni á síðu leiksins með ákveðnu millumerki (#). Þegar leiknum er startað þá opnar myndaalbúm merkt þeim hring sem þú ætlar að taka þátt í og þá sérðu fyrirmyndirnar og færð nánari upplýsingar um staðinn og hvernig á að merkja viðkomandi mynd. Það lið sem er fyrst til að birta allar átta myndirnar frá réttu sjónarhorni vinnur.“

Bjarney segir að bronshringurinn sé fjölskyldumiðaður og fari fram innan bæjarmarka kauptúnsins á einum degi. „Silfurhringurinn fer um sveitir Vopnafjarðar en ætti að henta flestum og hafa keppendur fimm daga til að klára verkefnið. Gullhringurinn er erfiðastur og inniheldur krefjandi verkefni eins og fjallgöngur en liðin hafa einnig fimm daga til að ljúka honum.“

Stefnir á að útbúa pakkaferðir
Bjarney ætlar að prufukeyra leikinn á Vopnafjarðardögum sem hefjast á sunnudaginn og vonast til þess að Vopnfirðingar og fleiri taki þátt. „Ég reikna ekki endilega með að fá marga keppendur að þar sem fyrirvarinn er stuttur og ég hef ekki auglýst leikinn mikið en ég tek að sjálfsögðu vel á móti öllum. Í framtíðinni er svo stefnan að búa til pakka með gistingu, mat og tilheyrandi ásamt náttúruupplifun og þátttöku í krefjandi leik og markaðsetja um land allt og jafnvel út fyrir landssteinana.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.