VG - kosningar - sept 2021

Oddvitar Norðausturkjördæmis: Bakgrunnur og skoðanir - Síðari hluti

Tíu flokkar munu bjóða sig fram til Alþingis í Norðausturkjördæmi í ár en kosið verður 25. september næstkomandi. Til þess að kynna alla oddvita kjördæmisins til leiks hefur Austurfrétt tekið saman stutta kynningu á þeim þar sem bakgrunnur þeirra er kynntur sem og dregin saman þær skoðanir sem þeir hafa viðrað á opinberum vettvangi til þess að kynnast áherslum þeirra.

Í síðustu viku voru fyrri fimm oddvitanir kynntir en lesa má þá grein hér: https://www.austurfrett.is/frettir/oddvitar-nordhausturkjoerdaemis-bakgrunnur-og-skodhanir-fyrri-hluti

 

Viðreisn - Eiríkur Björn Björgvinsson (f. 1966) er forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar. Hann lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1984 og stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla árið 1987. Hann sótti sér menntun á sviði íþrótta eftir að stúdentsprófi lauk og varð íþróttakennari frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1990 og lauk prófi í íþróttafræðum frá Deutsche Sporthochschule í Köln í Þýskalandi árið 1994 þar sem hann lærði stjórnun og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Síðar nældi Eiríkur sér í diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og í stjórnun og rekstri fræðslustofnana frá Kennaraháskóla Íslands.


Fyrstu ár starfsævinnar sinnti Eiríkur störfum á sviði æskulýðs- og íþróttamála. Hann vann í Tónabæ og við þjálfun knattspyrnu. Í Þýskalandi þjálfaði hann í meistaraflokki liðið 1920 Frechen og þá þjálfaði hann einnig við Háskólann í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Eftir að hann kom heim úr námsdvöl sinni í Þýskalandi árið 1994 hóf hann störf sem æskulýðs- og íþróttafulltrúi á Egilsstöðum en færði sig árið 1996 yfir til Akureyrar þar sem hann varð íþrótta- og tómstundafulltrúi. Í störfum sínum á þessum árum tjáði hann sig nokkuð um vímuefnavanda ungmenna og beitti sér fyrir forvörnum gegn vímuefnum.


Árið 2002 var Eiríkur Björn ráðinn bæjarstjóri Austur-Héraðs og þegar Austur-Hérað sameinaðist Norður-Héraði og Fellahreppi og varð að Fljótsdalshéraði árið 2004 varð hann bæjarstjóri Fljótdalshéraðs. Eiríkur var ekki bæjarstjóri ákveðins flokks heldur ráðinn inn sem embættismaður. Hann steig því lítið inn á hið pólitíska svið í opinberri umræðu, en það kom þó fyrir. Árið 2008 lýsti hann því yfir í grein í Morgunblaðinu að efla þyrfti aðstöðu á Egilsstaðaflugvelli. „Við Íslendingar eigum öflug flugfélög með einhverjar bestu áhafnir sem finnast í heiminum og til að tryggja öryggi þeirra og farþega skiptir máli að eiga enn öflugri varaflugvöll í millilandaflugi á Íslandi. Sá möguleiki er fyrir hendi á Egilsstöðum,“ sagði hann í niðurlagi greinarinnar.


Eftir átta ár sem bæjarstjóri á Austurlandi færði Eiríkur sig aftur á Norðurland þegar hann varð bæjarstjóri Akureyrar árið 2010. Hann var bæjarstjóri til ársins 2018 þegar hann tók við forstöðu fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar. Meira fór fyrir Eiríki í opinberri umræðu sem bæjarstjóra Akureyrar en Fljótsdalshéraðs. „Við leggjum mikla áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram virkur og þá ekki síst fyrir sjúkraflug og aðrar samgöngur sem lúta að öryggisþjónustu,“ sagði hann í viðtali við tímaritið Sveitarstjórnarmál árið 2012 um Reykjavíkurflugvöll og staðsetningu hans í Vatnsmýri.


Eiríkur Björn birti nýverið aðsenda grein á vefsíðu Austurfrétt þar sem hann ræddi kynjajafnrétti og byggðamál. „Það er því mikilvægt byggðamál og jafnréttismál að opinber störf séu í boði utan höfuðborgarsvæðisins eigi landsbyggðirnar að vera samkeppnishæfar hvað varðar íbúaþróun í anda jafnréttis. Skerpa þarf á markmiðum og vinna að því með markvissum aðgerðum að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins. Við þekkjum vel heppnuð dæmi um ríkisstofnanir sem staðsettar eru utan höfuðborgarsvæðisins eins og Jafnréttisstofu á Akureyri og Skógræktina sem staðsett er á Egilsstöðum,“ sagði Eiríkur í greininni. Þá hefur Eiríkur talað fyrir því að skapa sátt um sjávarútveg á Íslandi og að fjármagnið renni betur til byggða landsins. „Við tölum fyrir gegnsæi og sanngjörnu gjaldi af auðlindinni sem nýtast mun öllum landsmönnum, ekki síst þeim sjávarbyggðum sem treysta á atvinnugreinina. Þar væri til dæmis hægt að horfa til þjóðarsjóðs sem styrkt gæti sérstaklega ákveðin verkefni sem tengist ungu fólki, íþrótta-, menningar-, og æskulýðsstarfi,“ segir í sameiginlegri grein Eiríks, Guðbrands Einarssonar og Guðmundar Gunnarssonar en Guðbrandur og Guðmundur eru einnig oddvitar Viðreisnar í öðrum kjördæmum.


Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn – Björgvin Egill Vídalín Arngrímsson (f. 1947) er ellilífeyrisþegi. Hann útskrifaðist með gagnfræðapróf frá Gagnfræðaskóla verknáms árið 1964. Hann hóf störf eftir gagnfræðapróf hjá Landssímanum og var nemi í símvirkjun og varð síðar bæði rafeindavirki og loftskeytamaður. Hann er einnig með atvinnupróf í köfun.


Hann starfaði árin 1968-1970 sem aðstoðarmaður Hrafnkels Eiríkssonar, fiskifræðings, hjá Hafrannsóknarstofnun þar sem leitað var að nýjum rækjumiðum við Austurland, rækju- og skelfiskleit í Faxaflóa og humarathugunum við Suður- og Suðvesturland. Eftir það varð hann loftskeytamaður hjá Eimskip og var lengst af í ameríkusiglingum á frystiskipinu Brúarfossi.
Um miðbik níunda áratugarins hóf Björgvin að reka verslunina Radíóröst í Hafnarfirði ásamt félaga sínum. Radíóröst bauð meðal annars upp á hraðframköllun á ljósmyndum.

Björgvin er ekki ókunnugur stjórnmálaþátttöku. Hann var hluti af þeim sem kom að stofnun Stjórnmálaflokksins sem bauð sig fram fyrir Alþingiskosningarnar árið 1978. Helstu stefnumál flokksins voru: stjórnarskrárbreytingar sem fólu í sér að aðskilja löggjafa- og framkvæmdavald, gjaldtaka af herstöðvum NATO hérlendis og gjörbreyting á skattakerfinu. Flokkurinn bauð fram í Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi en hlaut aðeins 0,4% atkvæða og lognaðist útaf skömmu síðar. Hann átti síðar eftir að ganga til leiks við Alþýðuflokkinn.


Þegar Frjálslyndi flokkurinn bauð í fyrsta sinn fram fyrir Alþingiskosningarnar árið 1999 var Björgvin í miðstjórn flokksins. Hann skrifaði á þeim tíma nokkuð um fiskveiðistjórnun landsins þar sem honum fannst þörf á breytingu og kallaði það „gjafakvótakerfi.“ Hann var á lista Frjálslyndra og óháðra fyrir borgarstjórnarkosningar árið 2002.


Þegar Frjálslyndi flokkurinn hvarf af sjónarsviðinu upp úr hruni gekk Björgvin til liðs við Dögun og sat í stjórn flokksins, m.a. sem varaformaður. Dögun hafði svipaðar áherslur og þeir flokkar sem Björgvin hafði verið í; þar sem áhersla var á stjórnarskrárbreytingar og uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Hann var á lista Dögunar í Suðurkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskonsingar árið 2017.

Lítið hefur farið fyrir Björgvini í opinberri umræðu fyrir Alþingiskosningarnar í ár. Hann hefur þó tjáð sig nokkuð á facebook. Meðal þeirra mála sem hann hefur tjáð sig um er að hann vill efla Landhelgisgæsluna. „Ég á mér þann draum að Landhelgisgæslan verð efld til mikilla muna. Verði með fjögur öflug skip, Þór, Óðinn, Ægir og Týr, og ein þyrla verði staðsett í hverjum landsfjórðungi, því stuttur tími á slysstað getur skipt sköpum milli lífs og dauða. Mörg björgunarafrekin hefur Landhelgisgæslan leyst af hendi, bæði á sjó og í lofti. Ekki má gleyma björgunarsveitunum sem eru hryggjarstykkið í björgun mannslífa og slasaðra. Seint mun björgunarafrekið janúar 1994 í Vöðlavík gleymast,“ segir Björgvin. Þá heldur hann uppteknum hætti frá fyrri Alþingiskosningum þar sem fiskveiðistjórnunarkerfið er honum hugleiki. „ Á ferð minni um Norðausturkjördæmi frá Höfn til Siglufjarðar nú í júlí mánuði blasti ekki við fögur sjón. Engir bátar, ekkert líf. Milljarða innviðauppygging kastað á glæ. Fáeina mánuði yfir sumartímann eru leyfðar handfæraveiðar smábáta. Það gefur ekki alltaf til sjósóknar þessa mánuði vegna veðurs. Eitt lítið dæmi frá Ólafsfirði, lýsir þessu ágætlega. Strandveiðibátar frá Ólafsfirði, geta ekki landað aflanum í heimahöfn […] Eitt af stefnumálum Frjálslynda lýðræðisflokksins eru frjálsar handfæraveiðar og löndun í heimahöfn. Þetta skapar heilsársstörf bæði til sjós og lands, vítt og beitt um landið.“

Sjálfstæðisflokkurinn – Njáll Trausti Friðbertsson (f. 1969) er alþingismaður. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1990 og var við nám í flugumferðarstjórn árin 1990-1993. Árið 2004 bætti hann við sig BS-gráðu í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.

Njáll hefur allan sinn starfsferil, að alþingismennskunni frátalinni, starfað sem flugumferðarstjóri í flugturninum á Akureyri, auk þess sem hann kom að rekstri fyrirtækja, m.a. Kaffihúsið Björk í Lystigarðinum á Akureyri. Njáli hefur verið annt um uppbyggingu Akureyrarflugvallar í gegnum tíðina og vann meðal annars skýrslu árið 2005 fyrir Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri um millilandaflug frá Norður- og Austurlandi til áfangastaða í Evrópu. Þar komst hann að þeirri niðurstöðu að Akureyrarflugvöllur væri vannýttur og nauðsynlegt væri að lengja flugbrautina. Lengd flugbraut á Akureyrarflugvelli var svo tekin formlega í notkun árið 2009.


Njáll vakti einnig mikla athygli árið 2013 sem annar formanna félagsins Hjartað í Vatnsmýri. Félagið beitti sér fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram í Vatnsmýrinni en deilan um hvar flugvöllurinn eigi að vera hefur varað í áratugi. „Flugvöllurinn skiptir gríðarlega miklu máli fyrir atvinnulíf landsins og íbúa þess. Svo er rétt að benda á mikilvægi sjúkraflugsins. Við þurfum að geta komið fólki á sjúkrahús eins fljótt og hægt er þegar fólk slasast,“ sagði Njáll í viðtali við Morgunblaðið árið 2013.

Njáll Trausti fór fyrst að vekja athygli í stjórnmálum upp úr hruni. Hann bauð sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2010 þar sem hann hlaut kosningu í þriðja sæti listans og varð varabæjarfulltrúi það kjörtímabil. Hann bauð sig aftur fram árið 2014 og komst þá inn í bæjarstjórn Akureyrar.

Njáll Trausti skipaði annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi árin 2016 og 2017 og komst í bæði skiptin inn á þing. Eftir að Njáll Trausti sigraði prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi í vor bárust fregnir af því að Samherji hafi reynt að hafa áhrif á prófkjörið og ekki viljað hafa Njál í efsta sæti listans. „Mér þykir leitt að sjá þetta sé þetta rétt. Ég held að það sé öllum ljóst að ég er ekki af neinni valdafjölskyldu og ekki með sterka hagsmuni að baki mér, þannig hefur mín pólitík alltaf verið,“ sagði Njáll um málið.


Á nýafstöðu þingi var hann fyrsti flutningsmaður tveggja mála og sneru þau bæði að samgöngum en óhætta er að segja að áhersla Njáls í stjórnmálum sé sá málaflokkur. Fyrri þingsályktunartillagan sneri að þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera áfram í Vatnsmýri eða ekki. Síðari þingsályktunartillagan var tillaga um að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hæfi undirbúning að endurnýjun vegarins yfir Kjöl. Hvorug tillagan náð fram að ganga.

Í kosningabaráttunni í ár hefur Njáll Trausti talað fyrir breytingu á fyrirkomulagi ellilífeyris almannatrygginga og vill taka upp nýtt kerfi er það varðar. „Jöfnun vegna samtíma yrði framkvæmd með skattfrelsi (neikvæðum tekjuskatti) sem virkar eins og útgreiddur persónuafsláttur. Neikvæður tekjuskattur er mismunandi eftir því hvort einstaklingar eru í sambúð eða einir í heimili. Með neikvæðum tekjuskatti yrðu engar sérstakar skerðingar vegna atvinnutekna aðrar en fram koma í tekjuskattskerfinu og lækkandi neikvæðum tekjuskatti,“ sagði Njáll í grein á Íslendingurinn, vefriti Sjálfstæðisflokksins. Njáll hefur einnig tjáð sig um málefni kjördæmisins. Hann segir Sjúkrahúsið á Akureyri sé hornsteinn í heilbrigðisþjónustu kjördæmisins. Hann vill efla sjúkrahúsið og nefnir í því samhengi fimm atriði; bygging nýrrar legudeildarálmu, styrkja hlutverk sjúkrahússins sem miðstöð læknisfræðilegrar þjónustu sjúkraflugs í landinu, hefja hjartaþræðingar á sjúkrahúsinu, að sjúkrahúsið verði í fararbroddi í þróun og notkun fjarheilbrigðisþjónustu og loks að sjúkrahúsið verði háskólasjúkrahús. Um síðasta atriðið segir Njáll: „Þannig yrði skapaður vettvangur sem aðlaðandi vinnustaður fyrir það heilbrigðisstarfsfólk sem hefur áhuga og metnað til vísindarannsókna. Að sama skapi þarf að slá skjaldborg um áframhaldandi uppbyggingu Háskólans á Akureyri, enda er nám þar samofið í vísindastarfsemi sjúkrahússins.“


Vinstri græn – Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (f. 1965) er alþingismaður og þingflokksformaður Vinstri grænna. Hún útskrifaðist með B.Ed próf frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005 með áherslu á upplýsingatækni og samfélagsgreinar og árið 2008 lauk hún diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands.

Bjarkey hóf að vinna sem almannatryggingarfulltrúi og gjaldkeri á sýsluskrifstofu Ólafsfjarðar árið 1988 og var í því starfi til ársins 1991. Hún rak Íslensk tónabönd frá 1994-1999 ásamt manni sínum en fyrirtækið framleiddi segulbandsspólur. Hún gerðist grunnskólaleiðbeinandi við upphaf nýrrar aldar við Barnaskóla Ólafsfjarðar. Eftir að hafa lokið prófi við Kennaraháskóla Íslands varð hún kennari ásamt því að vera náms- og starfsráðgjafi innan skólans. Hún færði sig yfir í Menntaskólann á Tröllaskaga árið 2011 og var náms- og starfsráðgjafi við skólann auk þess að vera brautarstjóri starfsbrautar. Hún gegndi því starfi þar til hún varð þingmaður árið 2013. Auk þessara starfa stýrði hún daglegum rekstri og skrifstofuhaldi hjá Vélsmiðju Ólafsfjarðar á árunum 1989 til 2005 og þá hefur hún verið í veitingarekstri frá árinu 2005 þegar hún hóf að reka pítsastaðinn Höllin á Ólafsfirði.

Bjarkey fór snemma að taka þátt í stjórnmálum og var m.a. á lista Vinstrimanna og óháðra á Ólafsfirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 1994. Hún var ekki á óháða væng þess flokks en í Alþingiskosningunum árið eftir lýsti hún yfir stuðningi við Alþýðubandalagið. Hún gekk svo í Vinstri græna um aldamótin þar sem hún var í fyrsta sinn á lista fyrir flokkinn í Alþingiskosningunum árið 2003. Eftir þær kosningar varð hún varaþingmaður og settist fyrst á þing sem slíkur í nóvember árið 2004. Hún lét strax að sér kveða og lagði fram þingsályktunartillögu um að skipaður yrði starfshópur til að móta tillögur um að bæta aðstöðu einstæðra foreldra í námi.

Eftir að hafa verið varaþingmaður í áratug komst Bjarkey loks á þing árið 2013 þegar hún skipaði annað sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi. Steingrímur J. Sigfússon hefur verið oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi frá stofnun flokksins árið 1999. Í ár hættir Steingrímur á þingi og var því ljóst fyrir síðasta prófkjör VG í Norðausturkjördæmi að í fyrsta sinn yrði nýr oddviti. Bjarkey sóttist eftir efsta sætinu en Óli Halldórsson vann kosninguna. Bjarkey varð í öðru sæti en færðist upp í oddvitasætið þegar Óli þurfti að draga sig til baka í kosningabaráttunni í ágúst af persónulegum ástæðum.

Bjarkey var fyrsti flutningsmaður á þremur þingsályktunartillögum á nýafstöðnu þingi. Sú fyrsta fjallaði um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um opinbera starfsmenn, þ.e.a.s. starfsmenn 70 ára og eldri gætu haldið starfi sínu áfram ef þeir treystu sér til. Önnur tillagan var um aukin atvinnuréttindi útlendinga og að starfshópur yrði skipaður til að gera tillögur hvernig mætti auka atvinnuréttindi þeirra ríkisborgara sem ekki væru innan EES eða EFTA. Þriðja tillagan var um fjögurra ára áætlun um ýmis mál sem yrðu neytendum til hagsbóta, s.s. aukin neytenda fræðsla, aukin áhersla á sjálfbærni, upplýsingar um verðmerkingar o.fl. Engin þessara þriggja tilagna náði fram að ganga.

Í kosningabaráttunni í ár hefur Bjarkey m.a. tjáð sig um landbúnaðarmál sem hún segist alltaf hafa lagt áherslu á. „Það olli mér persónulega vonbrigðum að ekki næðist á kjörtímabilinu að færa afurðastöðvum bænda þau verkfæri sem til þarf til að vinna saman í meira mæli til að ná hagræðingu. Þannig er hægt að lækka framleiðslukostnað svo að hærri upphæð renni í vasa bænda. Þá blasir við að endurskoða þarf tollasamninginn við Evrópusambandið þar sem forsendur hans eru ekki til staðar í dag, ef þær voru nokkru sinni til staðar,“ sagði Bjarkey í viðtali við Bændablaðið fyrir skömmu. Bjarkey ritaði í Kjarnann ásamt Hólmfríði Árnadóttur, oddvita Suðurkjördæmis, grein um menningu á landsbyggðinni sem þær vilja hlúa að. Í greininni segir: „ Sóknaráætlanir landshlutanna eru eitt tæki sem hinar dreifðu byggðir hafa til fjármögnunar og að treysta stoðir menningar í anda stefnunnar. Það er í mörg horn að líta og mikilvægt að fjárstuðningur komi til enda margar byggðir strjálar en um leið mikilvægar þegar kemur að menningararfi og sögu þjóðar. Með slíkum stuðningi skapast tækifæri til að efla upplifanir, afþreyingu, þjónustu og verslun í heimabyggð fyrir íbúa á öllum aldri.“

Miðflokkurinn – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (f. 1975) er alþingismaður og formaður Miðflokksins. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1995 og lauk BS-próf frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands árið 2005 með fjölmiðlafræði sem sem aukagrein. Þá stundaði hann nám við Kaupmannahafnarháskóla í alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu og framhaldsnám í hag- og stjórnmálafræði við Oxford-háskóla á Englandi með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála en lauk ekki prófi.

Sigmundur Davíð starfaði í hlutastarfi sem fréttamaður og þáttastjórnandi á Ríkissjónvarpinu á árunum 2000-2007, m.a. í Kastljósi. „Margir hafa veitt athygli skeleggum, djúprödduðum en skýrmæltum pilti hjá Sjónvarpinu að nafni Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,“ sagði í dagblaðinu Degi árið 2000. Rétt fyrir hrun fór Sigmundur Davíð að vekja athygli í fjölmiðlum sem sérfræðingur í skipulagsmálum en það lagði hann stund á í Oxford. Hann tjáði sig að mestu um skipulagsmál í Reykjavík en einnig á Akureyri og Ísafirði og hélt fjölda fyrirlestra um skipulagsmál.


Eftir efnahagshrunið haustið 2008 varð Sigmundur áberandi sem einn af stofnendum og forsvarsmönnum InDefence hópsins. Hópurinn var stofnaður af fólki sem ofbauð framganga breskra stjórnvalda í garð Íslendinga þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum. Þá barðist hópurinn einnig gegn Icesave-samningunum.


Í miðri baráttu Sigmundar með InDefence hópnum varð hann formaður Framsóknarflokksins nokkuð óvænt því hann hafði fram að því ekki haft afskipti að hefðbundnu stjórnmálastarfi en faðir hans Gunnlaugur Sigmundsson hafði setið sem þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1995 til 1999.


Fyrstu ár Sigmundar sem formanns Framsóknarflokksins gekk allt að óskum og hlaut flokkurinn um 25% atkvæða í Alþingiskosningunum árið 2013. Sigmundur varð eftir þær forsætisráðherra en náði ekki að klára kjörtímabilið þar sem upp kom svokallað Wintris-mál sem allir landsmenn þekkja og ekki þarf að tíunda hér. Sigmundur gekk úr Framsóknarflokknum fyrir síðustu Alþingiskosningar og stofnaði Miðflokkinn sem hlaut tæplega 11% atkvæða.


Á nýafstöðnu þingi hefur Sigmundur Davíð verið fyrsti flutningsmaður á þremur þingsályktunartillögum. Sú fyrsta sneri að tímasettri aðgerðaráætlun um einföldun á regluverki ríkisins. Önnur tillagan sneri að stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjánlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar. Þriðja tillagan fjallaði um óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni og þar vísað í að Alþingi hafi samþykkt að höfða mál gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, árið 2010. Engin af þremur tillögum Sigmundar náði fram að ganga á þinginu.

Í kosningabaráttunni í ár hefur Sigmundur haldið áfram að ræða einföldun á regluverki ríkisins, rétt eins og í þingsályktunartillögunni fyrir ári síðan. Í stefnuskrá Miðflokksins segir meðal annars: „Nauðsynlegt er að minnka ríkisbáknið, einfalda regluverk og draga úr kerfisræði á Íslandi. Þannig er hægt að draga úr álögum á almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki fá aukið frelsi til að skapa ný störf og ný verðmæti. Stjórnvöld eiga að þjónusta almenning, ekki öfugt […] Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarstaða og samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði bætt með skattalegum hvötum og einfaldara regluverki þar sem ekki eru lagðar sömu kvaðir á litlu fyrirtækin eins og þau stærstu.“ Þá hefur Sigmundur talað með öðrum hætti um loftslagsmál en aðrir flokkar. „Hún byggist á skynsemishyggju en ekki öfgum eða samtímaduttlungum. Ég hef bent á það að það besta sem við getum gert fyrir loftslagið er að framleiða sem mest á Íslandi. Því meira sem er framleitt hér með okkar hreinu endurnýjanlegu orku, þeim mun minni er losunin af þeirri framleiðslu […] Við gætum búið til umhverfisvænt eldsneyti og flutt það út. Það eru endalausar hugmyndir sem hægt er að hrinda í framkvæmd ef við hverfum af þeirri braut sem nú er verið að boða, sem er í raun afturhaldsstefna, sem er til þess ætluð að draga úr verðmætasköpun og framleiðslu á Íslandi,“ sagði Sigmundur í samtali við visir.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.