Oddvitar Norðausturkjördæmis: Bakgrunnur og skoðanir - Fyrri hluti

Tíu flokkar munu bjóða sig fram til Alþingis í Norðausturkjördæmi í ár en kosið verður 25. september næstkomandi.Til þess að kynna alla oddvita kjördæmisins til leiks hefur Austurfrétt tekið saman stutta kynningu á þeim þar sem bakgrunnur þeirra er kynntur sem og dregin saman þær skoðanir sem þeir hafa viðrað á opinberum vettvangi til þess að kynnast áherslum þeirra. Að þessu sinni verða fimm oddvitar  til umfjöllunar en að viku liðinni verða síðari fimm kynntir.

Sósíalistaflokkur Íslands - Haraldur Ingi Haraldsson (f. 1955) er myndlistarmaður. Haraldur útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1976 og frá Myndlista- og handíðaskólanum árið 1981, þaðan fór hann fljótlega í áframhaldandi myndlistarnám í Hollandi í Academie Voor Beeldende. Hann rak Rauða húsið á Akureyri við upphaf níunda áratugarins, sem var eins konar miðstöð nútímalistar á Akureyri, ásamt þeim Guðmundi Oddi Magnússyni, Goddi, og Jóni Laxdal.


Haraldur hefur verið áberandi í menningarlífi Akureyringa í um 40 ár. Haraldur Ingi hefur haft mikinn áhuga á sagn- og þjóðfærði og því tengt skrifað í blöð og verið dagskrárgerðarmaður í útvarpi, á níunda áratugnum var hann m.a. þáttstjórnandi Sögusteins á Rás 1. Þá hefur Haraldur sent frá sér bækur; Setið á Svalþúfu (1989) þar sem Haraldur ræðir við Þórð á Dagverðará, matreiðslubókina Lax og silungur (2000) og ljóðabækur.


Árið 1993 var Listasafn Akureyrar stofnað og kom Haraldur Ingi að undirbúningi þess og var fyrsti forstöðumaður safnsins og gegndi því starfi í sex ár. „Ég hef alltaf gengið með með þá þráhyggju að Akureyri væri bærinn til að byggja upp myndlistarstarfsemi í. Mér hefur alltaf þótt þörf á að víkka rammann út fyrir Reykjavík,“ sagði Haraldur í viðtali við Morgunblaðið árið 1994.


Haraldur Ingi hefur sinnt ýmsum störfum undanfarna tvo áratugi, m.a. verkefnastjóri hjá Hríseyjarhreppi, forstöðumaður Iðnarðarsafnsins, sýningarstjóri auk þess að sinna myndlistinni. Árið 2016 varð Haraldur Ingi bæjarlistamaður Akureyrar. Í dag starfar hann sem verkefnastjóri hjá Listasafni Akureyrar.


Haraldur hefur ekki legið á skoðunum sínum í gegnum tíðina. Opinberlega tjáði hann sig lengst af að langmestu leyti um menningarmál og þá aðallega á Akureyri, en þó einnig á landsvísu. Haraldur hefur í kosningabaráttu sinni tjáð sig nokkuð um að hann vilji koma að því að vinda ofan af nýfrjálshyggjustefnu stjórnvalda sem hann segir að hafi einkennt stjórnmálin undanfarna áratugi. „Fyrir 1991 voru lægstu laun skattfrjáls og eftirlaun voru skerðingarfrjáls. Við sósíalistar viljum endurheimta þau réttindi sem láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar höfðu fyrir 1991 þegar nýfrjálshyggjunni var sleppt lausri í samfélaginu okkar,“ segir Haraldur í grein sem birtist í Austurfrétt í dag. Þá hefur hann einnig lagt áherslu á sósíalíska byggðastefnu. „Við áttum heilbrigðiskerfi sem náði til landsins alls. Konur gátu fætt börn sín I heimabyggð og þurftu ekki að ferðast yfir langan veg til þess. Þetta kerfi var brotið niður. Við viljum byggja upp gjaldfrjálst og ríkisrekið heilbrigðiskerfi á landsbyggðinni og nýta okkur tækniframfarir til þess. Við viljum að konur geti fætt börn sín í heimabyggð. Það er sósíalísk byggðastefna,“ sagði Haraldur nýlega í aðsendri grein sem birtist á Austurfrétt.

Píratar - Einar Brynjólfsson (f. 1968) er framhaldsskólakennari. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri árið 1990. Hann útskrifaðist með meistarapróf í sagnfræði frá Georg-August-Universität í Göttingen í Þýskalandi árið 1997 og nældi sér í kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla í Háskólanum á Akureyri árið 2000.


Einar hefur starfað sem framhaldsskólakennari allt frá því hann útskrifaðist sem sagnfræðingur frá Þýskalandi. Fyrst í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 1998-1999, þá í Verkmenntaskólanum á Akureyri 1999-2010 og loks í Menntaskólanum á Akureyri. Einar var ritstjóri Súlna, tímarits Sögufélags Eyfirðinga árið 2000 til 2002.


Ekki fór mikið fyrir Einari í opinberri umræðu þar til hann varð oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi árið 2016. Hann var kjörinn á Alþingi það sama ár en féll af þingi í kosningunum árið 2017. Hann var fyrsti flutningsmaður á tveimur þingsályktunartillögum á skammri dvöl sinni á Alþingi. Sú fyrri var um lausn á húsnæðisvanda Listaháskóla Íslands og sú síðari var ályktun um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands en hvorugar náðu fram að ganga.


Í kosningabaráttunni í ár hefur Einar m.a. lagt áherslu á stjórnarskrármálið. „Halda þarf áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar. Löngu er tímabært að ný ákvæði um auðlindir í þjóðareign og umhverfis- og náttúruvernd hljóti afgreiðslu Alþingis en einnig þarf að ráðast í tímabærar breytingar á öðrum köflum. Endurskoða þarf mannréttindakafla stjórnarskrárinnar meðal annars með hliðsjón af réttinum til menntunar, heilbrigðis og lífsviðurværis,“ sagði hann nýverið í grein á visir.is. Þá hefur Einar einnig tjáð sig um afglæpavæðingu fíkniefna. „Næsta skref stjórnvalda, og almennings líka, hlýtur að vera að líta á fíkn sem áskorun fyrir heilbrigðiskerfið en ekki fyrir refsivörslukerfið. Refsileysi er á næsta leiti, en það mun ekki vera gallalaust, því munu fylgja áskoranir, en það mun þó minnka vandann,“ sagði Einar í grein í Morgunblaðinu í ágúst.


Framsóknarflokkurinn - Ingibjörg Ólöf Isaksen (f. 1977) er bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar. Íþróttir hafa skipað stóran sess í lífi Ingibjargar en hún var á yngri árum öflugur sundmaður en sneri sér að sundþjálfun um tvítugt. Hún útskrifaðist með BS-gráðu í íþróttafræði í Kennaraháskóla Íslands árið 2003.


Hún hefur búið á Eyfjarðarsvæðinu frá því snemma á þessari öld en hefur látið að sér kveða á sviði stjórnmála um nokkuð skeið. Hún sat í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar á árunum 2010-2013 og bauð sig fram fyrir Framsóknarflokkinn í sveitarstjórnarkosningunum á Akureyri árið 2014 og hefur setið í bæjarstjórn Akureyrarbæjar síðan. Hún hefur bæði verið formaður íþróttaráðs og fræðsluráðs Akureyrarbæjar.


Ingibjörg hefur tjáð sig nokkuð mikið á opinberum vettvang undanfarin ár. Hefur hún gagnrýnt störf umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Í grein hennar í Fréttablaðinu síðla árs 2019 sagði hún: „Það hefur ekki dulist nokkrum sem hefur fylgst með gangi þjóðfélagsmála að umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson er í friðunarherferð langt umfram meðalhóf og nauðsyn,“ í grein sem bara yfirskriftina „Ótímabærar og óhóflegar friðlýsingar umhverfisráðherra.“ Um hálfu ári síðar birtist grein eftir hana í sama blaði ásamt Helga Jóhannessyni, forstjóra Norðurorku hf. sú grein bar yfirskriftina „Hálendisþjóðgarður og orkuauðlindir þjóðarinnar.“ Í henni kemur einnig fram gagnrýni á störf Guðmundar Inga og segir m.a.: „Annað er að umræðan um hálendisþjóðgarð hefur ekki náð að þróast og er keyrð áfram í flýti.“


Meðal þess sem Ingibjörg hefur sett á oddinn í kosningabaráttunni í ár er að Íslendingar einbeiti sér að framleiðslu á grænni orku í baráttu sinni við loftslagsbreytingar. „Ef þjóðin heldur rétt á spilunum eru mikil tækifæri á Íslandi falin í öflun á grænni orku. Fáir eru í betri færum til að taka orkuskipti alla leið, byrja á bílaflotanum, horfa svo til vinnuvéla og skipaflotans og loks til flugsamgangna í framtíðinni, eftir því sem grænni tækni fleygir fram. Traustir orkuinnviðir um land allt eru lykillinn að að þessari umbreytingu og þeim árangri í loftlagsmálum sem við gætum náð,“ sagði Ingibjörg nýverið í grein sem birtist á visir.is. Þá hefur hún einnig komið inn á málefni kjördæmisins í kosningabaráttunni. Hún hefur verið ánægð með áherslu á uppbyggingu innanlandsflugvalla á kjörtímabilinu sem er að líða. „Með aukinni flugumferð á síðustu árum er mikilvægt að flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum geti þjónað sem alþjóðaflugvellir meðal annars til að opna fleiri gáttir inn í landið og taka virkan þátt þegar sóknin hefst og allt fer aftur á flug. Stigin hafa verið stór skref í flugmálum undir stjórn Sigurðar Inga á kjörtímabilinu. Um er að ræða arðbær verkefni sem hafa mikla þýðingu fyrir samfélög um allt land,“ ritaði hún í Morgunblaðið í byrjun ágúst.

Samfylkingin - Logi Einarsson (f. 1964) er formaður Samfylkingarinnar og þingmaður. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri árið 1985 og með próf í arkitektúr í Arkitekthogskolen í Osló árið 1992.


Logi hefur starfað sem arkitekt allt frá útskrift á eftirfarandi stöðum: H.J. teiknistofu 1992-1994, skipulagsdeild Akureyrarbæjar 1994-1996, teiknistofunni Form 1996-1997, Úti og inni arkitektastofu 1997-2003, Arkitektúr.is arkitektastofu 2003-2004, Kollgátu arkitektastofu 2003-2016. Þá var Logi stundakennari við Háskólann í Reykjavík frá 2010 til 2012. Þá má ekki gleyma að Logi vakti mikla athygli sem dansari og almennur stemningsmaður hljómsveitarinnar Skriðjöklanna.


Logi byrjaði ungur afskiptum af stjórnmálum og var á lista Alþýðubandalagsins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Akureyri árið 1994 og var á þeim tíma einnig varaformaður Alþýðubandalagsfélagsins á Akureyri. Logi gekk svo í Samfylkinguna og varð bæjarfulltrúi fyrir flokkinn á Akureyri árið 2012 eftir að hafa verið varabæjarfulltrúi eftir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2010. Logi var kosinn á þing í Alþingiskosningunum árið 2016 og var þá varaformaður flokksins. Eftir slæma kosningu Samfylkingarinnar það ár sagði Oddný G. Harðardóttir af sér formennsku og varð Logi þá skyndilega formaður Samfylkingarinnar og er það enn.


Logi var fyrsti flutningsmaður á tveimur frumvörpum á nýafstöðu þingi. Fyrra var frumvarpið var um breytingu á almannatryggingum þar sem lagt var til að elli- og örorkulífeyrir fylgi þróun lágmarkstekjutryggingar í samræmi við kjarasamninga og verði 386 þúsund árið 2022. Síðara frumvarpið sneri að breytingu á sóttvarnalögum þar sem sóttvarnayfirvöldum fengju heimild til að skylda ferðamenn til sóttkvíar og einangrunar í sóttvarnahúsi. Hvorugt frumvarpið náði í gegn. Þá var Logi fyrsti flutningsmaður á fjórum þingsályktunartillögum. Sú fyrsta sneri að því að ríkissjóður kæmi til móts við sveitarfélög vegna tekjutaps á heimsfaraldrinum, önnur sneri að grænni atvinnubyltingu þar sem stefnt yrði að nýta atvinnuleysið vegna heimsfaraldursins til uppbyggingar á vistvænni atvinnu, sú þriðja sneri að ýmsum aðgerðum vegna atvinnuleysis hjá námsmönnum og listafólki og sú fjórða að gerð yrði rannsókn á veggöngum milli Siglufjarðar og Fljóta. Tillagan um græna atvinnubyltingu gekk til ríkisstjórnar en aðrar náðu ekki fram að ganga.


Í kosningabaráttunni nú hefur Logi lagt töluverða áherslu á heilbrigðismálin. „ Það verður strax að veita fjármagni til spítalans til þess að fjölga rýmum og leggja allt í sölurnar til að fjölga starfsfólki, t.d. með miklu hærri álagsgreiðslum og bæta starfsaðstæður. Strax í framhaldi af því verður að virða þjóðarákall um betra heilbrigðiskerfi; og ráðast í langtímaáætlun um betri og öruggari heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Heilbrigðisþjónustu sem er í stakk búin til að bregðast við óvæntum áföllum sem munu alltaf geta komið upp,“ sagði Logi í grein á visir.is í ágúst. Þá hefur Logi tjáð sig um málefni Akureyrar og vill auka vægi bæjarins á landsvísu. „Aðgerðir sem hægt er að ráðast í nú þegar í þessu augnamiði eru að Sjúkrahúsið á Akureyri verði háskólasjúkrahús, að Háskólinn á Akureyri bjóði upp á bæði list- og tækninám, miðstöð um málefni Norðurslóða á Akureyri verði efld til muna, framlög ríkisins í menningarsamning vegna Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Listasafnsins á Akureyri verði stóraukin og kraftur verði settur í að koma á reglulegu millilandaflugi til Akureyrar: Það ásamt öðrum markvissum aðgerðum í uppbyggingu ferðaþjónustu mun efla Akureyri sem miðstöð fyrir ferðafólk sem vill njóta alls þess sem Norðurland hefur upp á að bjóða. Þá ættum við að hugsa stórt í alþjóðasamvinnu og stefna að því að Akureyri verði Menningarborg Evrópu 2026,“ segir í sameiginlegri grein Loga og Hildu Jönu nýverið.


Flokkur fólksins - Jakob Frímann Magnússon (f. 1953) er tónlistarmaður sem byrjaði ungur í bransanum en hann stofnaði ásamt skólafélögum sínum í Menntaskólanum við Hamrahlíð hljómsveitina Stuðmenn fyrir um hálfri öld síðan. Fyrsta plata hljómsveitarinnar, Sumar á Sýrlandi, kom út árið 1975 og sló í gegn. Árið eftir kom út platan Tívolí en segja má að hljómsveitin hafi fest sig í sessi sem ein vinsælasta hljómsveit 20. aldar á Íslandi með kvikmyndinni Með allt á hreinu sem kom út árið 1982. Á milli þess að Tívolí og Með allt á hreinu komu út fluttist Jakob til Bandaríkjanna þar sem hann byggði upp sólóferil undir listamannsnafninu Jack Magnet.


Jakob Frímann hefur einnig komið að kvikmyndagerð. Hann gerði heimildamyndina Brasilíufararnir árið 1982, leikstýrði kvikmyndinni Hvítir mávar árið 1985 og framleiddi Í takt við tímann árið 2004. Bæði Hvítir mávar og Í takt við tímann eru svokallaðar Stuðmanna-myndir.


Jakob Frímann hefur einnig sinnt störfum innan stjórnsýslunnar og var menningarfulltrúi íslenska sendiráðsins í London frá 1991-1995, menningarráðunautur utanríkisráðuneytisins árið 2006 og árið 2009 varð hann framkvæmdastjóri miðborgarmála í Reykjavík og var við þau störf í nokkur ár og var þá gjarnan kallaður miðborgarstjóri. Þá hefur Jakob Frímann setið í ýmsum stjórnum m.a. sem formaður Félags tónskálda og textahöfunda, formaður stjórnar ÚTÓNs og formaður SAMTÓNS. Undanfarin ár hefur Jakob veitt þróunarfélagi forstöðu sem ætlar að reisa lúxushótel í Össurárdal skammt frá Höfn í Hornafirði.


Jakob hefur lengi verið tengdur stjórnmálum og var virkur innan Alþýðuflokksins fyrir um þremur áratugum síðan. Hann hefur lýst því í viðtölum nýlega að hann hafi þótt Flokkur fólksins minna sig á gamla Alþýðuflokkinn. Hann varð síðar stofnmeðlimur í Samfylkingunni og var á listum flokksins í Alþingiskosningum fyrstu ár hans og kom m.a. inn sem varaþingmaður Samfylkingarinnar í desember árið 2004. Dvöl Jakobs á þinginu var stutt og náði hann aðeins að tjá sig um eitt mál en það var um stuðnings Íslands við innrásina í Írak. Vildi Jakob að íslensk stjórnvöld bæðust afsökunar á því að hafa lýst yfir stuðningi við hana og sagði m.a.: „Þetta mál snýst að stórum hluta um samvisku okkar sem þjóðar, samvisku okkar sem einstaklinga og ég bið hæstv. forsætisráðherra sérstaklega að taka tillit til þess að fjórir af hverjum fimm Íslendingum þjást vegna þessa í sálu sinni.“


Jakob yfirgaf Samfylkinguna fyrir Alþingiskosningarnar árið 2007 og gekk til liðs við Íslandshreyfinguna sem stofnuð var af Ómari Ragnarssyni og skipaði oddvitasæti þess flokks í Suðvesturkjördæmi það sama ár.


Jakob hefur hefur látið að sér kveða í málum er varðar tónlistarmenn um langa hríð en fyrr í sumar vöktu orð hans um tónlistarveituna Spotify athygli þegar hann sagði í Bítinu á Bylgjunni: „Þetta er versta birtingarmynd nýlendustefnu sem hefur nokkru sinni sést, að 95 prósent teknanna fara til fimm prósent elítu listamannanna. Þá þurfa hin 95 prósent listamannanna að bítast um fimm prósentin sem eftir eru.“

Jakob hefur boðað það að berjast gegn fátækt í landinu eftir að hann gekk til liðs við Flokk fólksins. „Við ætlum að skora á hólm þá þjóðarskömm sem felst í þeim afarkostakjörum og þeirri fátækragildru sem stjórnvöld hafa hneppt eldri borgara og öryrkja þessa lands í,“ sagði Jakob Frímann nýverið við Austurfrétt. Þá vill hann lækka ýmsar álögur á fólk. „Við hvert fótmál ertu skattaður, bensínlítrinn fer 70% til ríkisins, bjórlítrinn sömuleiðis. Þetta er allt svo ofboðslega mikið okur ríkisins, uppsafnað á 70 árum. Þessu okri þarf að linna, þetta er okur á þegnunum og við þurfum bara að stemma þetta niður. Það er nóg til, það þarf bara að skipta því rétt,“ sagði Jakob í Bítinu á Bylgjunni þegar hann kynnti framboð sitt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.