Óbreytt staða eystra

Fjöldi þeirra sem eru með virkt Covid-19 smit eða eru í sóttkví er óbreyttur frá í gær. Fjórir veiktust í fimm manna fjölskyldu sem er gestkomandi á svæðinu. Óljóst er hvar þau fengu veiruna.

Sjöu eru í einangrun vegna virks smits og 26 í sóttkví, sami fjöldi og í gær. Fimm ný smit greindust í um helgina.

Eins og Austurfrétt greindi frá í gær voru fyrst tveir skimaðir á föstudag eftir að hafa sýnt einkenni. Í kjölfarið voru 20 settir í sóttkví og allir skimaðir. Þrír þeirra reyndust jákvæðir. Þá var í gær greint frá því að kornabarn hefði greinst jákvætt á Austurlandi.

Ekki hugmynd um hvaðan veiran kom

Það er níu mánaða dóttir Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar og Eyrúnar Bjarkar Jóhannsdóttur. Jóhann og Eyrún eru bæði smituð og eitt barn þeirra í viðbót en það þriðja reyndist neikvætt.

Jóhann og Eyrún komu austur nýverið, eftir ferðalag um Norðurland, en foreldrar hennar búa á Fljótsdalshéraði. Í dag skrifaði Jóhann Bjarni opna færslu á Facebook þar sem hann skýrir frá heilsu fjölskyldunnar þar sem henni hafi borist fjölda fyrirspurna á síðustu dögum.

Hann segir þau vera í einangrun eystra þar sem þau hafi greinst. Öllum heilsist þokkalega og einkennin séu lítil. Eyrún hafi fundið fyrir veikindum í nokkra daga áður en hún fór í sýnatöku á Egilsstöðum á fimmtudag og greindist jákvæð. Hin voru skimuð í kjölfarið.

Hann segist ekki hafa hugmynd um hvar eða hvernig þau hafi smitast. Enginn vina þeirra, sem þau hittu fyrr í ferðinni, sé með veiruna og því líklegast að þau hafi smitast á tilviljanakenndum stað þar sem þau hafi áð, svo sem verslun, sundlaug, veitingastað eða hóteli. Það segi sína sögu um hve skæð veiran sé.

Jóhann Bjarni skrifar að það sé ömurlegt að 15 manns séu nú í sóttkví vegna tengsla við þau áður en smitið greindist en vonandi takist þannig að koma í veg fyrir að smitið dreifi sér frekar. Þá færir fjölskyldan heilbrigðisstarfsfólki, bæði á Austurlandi og í Reykjavík, hrós fyrir að hafa haldið utan um þau.

Minna á smitvarnir

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi frá í gær er lýst áhyggjum af fjölgun smita og minnir fólk á að sinna einstaklingsbundum sóttvörnum, svo sem fjarlægð og handþvotti. Þá er brýnt fyrir fyrirtækjum og stofnunum að huga að sínum sóttvörnum og meta hvort þær þurfi að herða.

Einstaklingar sem finna fyrir einkennum eru hvattir til að halda sig heima og hafa samband við heilsugæslu til að fá frekari leiðbeiningar. Fólk er hvatt til að sækja smáforritið Rakning C-19 sem reynst hafi mikilvægt til að stöðva útbreiðslu veirunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.