Nýr vegur um Vatnsskarð á næsta ári

Nýr vegur um Vatnsskarð eystra verður stærsta nýframkvæmdin í vegagerð á Austurlandi á næstu árum verði fimm ára samgönguáætlun samþykkt óbreytt. Hún var formlega lögð fram á Alþingi í gær.

Endurbyggja á veginn til Borgarfjarðar eystra algjörlega á tímabilinu. Á næsta ári er bæði gert ráð fyrir fjárveitingum til að klára framkvæmdir um Njarðvíkurskriður sem og leggja nýjan veg yfir Vatnsskarð fyrir 360 milljónir. Hálfur milljarður er síðan áætlaður til að klára leiðina frá Eiðum út í Laufás í Hjaltastaðaþinghá árið 2023.

Lögð er til umtalsverð aukning á fjármagni til viðhalds vega, en ekki er skýrt nánar hvernig sú upphæð skiptist.

Mest í flugvöllinn á Egilsstöðum

Egilsstaðaflugvöllur fær mest af viðhaldsfjármagni innanlandsflugvalla. Á næsta ári eru ætlaðar þar tæpar 60 milljónir í leiðsögu- og ljósabúnað en árin 2022 og 2023 eru settar hátt í 800 milljónir í viðhald flugbrautarinnar.

Hafnarframkvæmdir eru einnig á dagskrá samgönguáætlunar en ríkið greiðir um helming kostnaðar. Á áætluninni er dýpkun innsiglingarinnar á Vopnafirði og endurbygging flotbryggju á Breiðdalsvík á næsta ári, endurbygging Angorabryggju á Seyðisfirði árin 2021-2022 og Bjólfsbakkabryggju árið 2023.

Þá er gert ráð fyrir endurbyggingu hafskipabryggju á Djúpavogi árin 2022-2023 auk þess sem athugun verður gerð á hafnaraðstöðu fyrir fiskeldi.

Stórframkvæmdir 2029-2033

Samhliða fimm ára áætluninni var lögð fram fimmtán ára áætlun og skiptist hún í þrjú tímabil, 2019-2023, 2024-2028 og 2029-2033. Þar bætast við ýmsar stórframkvæmdir á Austurlandi. Stærst þeirra er Fjarðarheiðargöng sem eru á síðasta tímabilinu.

Á því er einnig gert ráð fyrir nýjum Axarvegi, endurbótum um Suðurfjarðarveg frá Reyðarfirði til Breiðdalsvíkur og Lón. Þar stendur til að endurbyggja 16 km kafla sem þýðir að sex einbreiðar brýr verða lagðar af og Hringvegurinn styttist um fjóra kílómetra. Ný brú yfir Lagarfljót er á öðru tímabili.

Þar fyrir utan eru minni framkvæmdir sem taldar eru kosta minna en milljarð króna og eru á þriðja tímabili. Þar eru tekin sem dæmi snjóflóðavarnir við veginn um Fagradal utan í Grænafelli, ýmsar framkvæmdir á Hlíðarvegi og Upphéraðsvegi, endurbygging vegarins milli Gilsár og Arnórsstaða á Jökuldal, ný brú á Búlandsá og færsla Hringvegarins við Teigarhorn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.