Nýr búsetukjarni mun stórbæta þjónustu við fatlaða í Fjarðabyggð

Skrifað hefur verið undir samstarfssamning Fjarðabyggðar annars vegar og fyrirtækisins R101 ehf. um byggingu sérstaks búsetukjarna fyrir fatlaða einstaklinga.

Kjarninn mun rísa á Reyðarfirði en þar verða sex einstaklingsíbúðir en þar boðið upp á skammtímavistun fatlaðra. Auk þess sérstakt starfsmannarými, stór setustofa og tækjageymsla.

Sveitarfélagið mun ekki eiga fasteignina heldur reka alla þjónustu við íbúa sem þar koma til með að leigja íbúðirnar. Staðsetning kjarnans á Reyðarfirði talin mikilvæg sökum nálægðar við alla helstu þjónustu en ekki síður vegna nálægðar við Múlaþing sem gefur möguleika á samþættingu þjónustu kjarnans ef svo ber undir.

Aðalheiður Björk Rúnarsdóttir, stjórnandi félagsþjónustu Fjarðabyggðar, segir engan vafa leika á að með kjarnanum verði hægt að stórbæta þjónustu við fatlað fólk, fötluð börn og fjölskyldur þeirra.

„Við hönnun búsetukjarnans verða fjölbreyttar þarfir íbúa hafðar að leiðarljósi. Nýjasta velferðartækni verður nýtt, sem gengur útá að viðhalda og auka öryggi, virkni og sjálfstæði fólks í daglegu lífi. Markmiðið með þessu er að styðja enn frekar við og styrkja sjálfstæði einstaklinga með stuðningsþarfir í sjálfstæðri búsetu.“

Forsvarsmaður R101 ehf., Róbert Óskar Sigvaldason, segir spennandi að taka þátt í verkefninu sem hafi mætt velvilja og skilningi. Mikil áhersla sé lögð á að fá verktaka úr nærhéraði til verksins og það hafi tekist vel hingað til. 

Frá undirritun samningsins í gær. Fremst sitja bæjarstjórinn Jóna Árný og framkvæmdastjórinn Róbert Óskar Sigvaldason en að baki þeirra Þórður Vilberg Guðmundsson, Snorri Styrkársson, Stefán Þór Eysteinsson, Hjördís Seljan, Ragnar Sigurðsson, Þuríður Lilly Sigurðardóttir og Laufey Þórðardóttir. Mynd Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.