Nýr bátur til Loðnuvinnslunnar

Sandfell SU 75 kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Fáskrúðsfirði í gær. Loðnuvinnslan festi kaup á línuveiðibátnum og 1200 tonna bolfiskkvóta fyrir andvirði 3,1 milljarðs króna.


Bæjarbúum var boðið til móttökuathafnar á Franska spítalanum í gær og var báturinn þar til sýnis við bryggjuna.

Hann er keyptur frá Stakkavík í Grindavík og hét áður Óli á Stað. Hann er rúmlega eins árs gamall. Átta manns vinna á bátnum en fjórir eru í áhöfn í senn. Eldri áhafnarmeðlimir fylgja með bátnum.

Reiknað er með því að báturinn geti veitt um 1500 tonn á ári sé hann gerður stíft út. Bátarnir eru gjarnan fjóra mánuði að veiðum við Reykjanes en síðan átta mánuði við Norður- eða Austurlands. Gert er ráð fyrir að velta af honum geti numið um 300 milljónum króna á ári.

Þórunn Beck, gæðastjóri og trúnaðarmaður í frystihúsi Loðnuvinnslunnar sem starfað hefur hjá fyrirtækinu árum saman, gaf bátnum nafn í gær en Sandfellið er eitt af einkennisfjöllum Fáskrúðsfjarðar.

Loðnuvinnslan hefur bætt við sig bolfiskveiðiheimildum síðustu ár til að mæta sveiflum í uppsjávarfiski. Kaupin á bátnum og kvótanum eru liður í því. Í samtali við Austurfrétt í gær sagði Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri, að tilkoma Sandfellsins myndi tryggja stöðugri vinnslu á Fáskrúðsfirði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.