Ný Kröflulína hefur talsvert neikvæð áhrif á votlendi

Ný raflína milli Kröflu og Fljótsdalsstöðvar, Kröflulína 3, hefur í för með sér talsverða röskun á votlendi á Jökuldals- og Fljótdalsheiðum. Landsnet vill leggja línuna alla sem loftlínu þar sem jarðstrengur væri meira en tvöfalt dýrari.


Þetta kemur fram í frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum sem liggur frammi en frestur til að gera athugasemdir við hana til Skipulagsstofnunar rennur út á morgun. Verkfræðistofan Efla vann skýrsluna fyrir Landsnet sem er framkvæmdaaðili.

Ætlunin er að línan komi í stað hinnar svokölluðu Byggðalínu á svæðinu sem reist var í áföngum á árunum 1972-1984. Hún er 132 kV háspennulína og er staðan sú að hún stendur ekki lengur undir flutningskröfum, sem sagt er hamla atvinnuuppbyggingu á Austurlandi.

Nýja línan er 220 kV og á að auka afhendingaröryggi rafmagns í fjórðungnum til muna. Hún fer um þrjú sveitarfélög: Skútustaðahrepp, Fljótsdalshrepp og Fljótsdalshérað. Áætluð lengd hennar er 122 km og liggur hún að mestu samsíða núverandi línu. Af þeim sökum eru sjónræn áhrif hennar talin óveruleg.

Jarðstrengur meira en tvöfalt dýrari

Aðalval Landsnets að línan verði öll loftlína. Það er rökstutt með því að 132 kV jarðstrengur hefði í för með sér takmarkanir á langtímauppbygginu flutningskerfisins, verði lengri og sé töluvert meira en tvöfalt dýrari en loftlínan. Þá kemur fram að hámarkslengd jarðstrengs á leiðinni séu 15 km, sem er vegna svokallaðra skammhlaupsafla. Því fylgja enn frekari tæknilegar áskoranir.

Skoðað hefur verið að leggja jarðstreng niður fjallið ofan Fljótsdalsstöðvar en það er talið hafa í för með sér varanlegt rask og neikvæð sjónræn áhrif. Undirbúningur að línunni hefur staðið um nokkurra ára skeið og gerði hreppsnefnd Fljótsdalshrepps á sínum tíma athugasemdir við loftlínu niður fjallið. Umhverfisstofnun var meðal þeirra aðila þá sem bentu á veruleg neikvæð áhrif jarðstrengs þar.

Vernduðu votlendi raskað

Á svæðinu frá Jökulsá á Fjöllum að Jökulsá í Fljótsdal er línan talin hafa talsverð neikvæð áhrif á votlendi og landslag. Ástæðan er að hún raskar rúmum 11 hekturum af votlendu, þar af 8 hekturum á svæðum sem falla undir sérstaka vernd samkvæmt lögum um náttúruvernd á votlendissvæðum sem eru stærri en tveir hektarar.

Þau eru öll á Jökuldalsheiði og Fljótsdalsheiði. Gert er ráð fyrir að jafn mikið votlendi verið endurheimt. Staðsetning þess verður ákveðin í samráði við Umhverfisstofnun.

Töluvert rask á gróðurlendi

Meðfram línunni þarf að vera varanleg ökuslóð fær vörubílum að sumarlagi, fyrst og fremst vegna framkvæmdanna en einnig til eftirlits og viðhalds. Þar sem byggt verður að langstærstum hluta samsíða eldri línu eru víða slóðir eða troðningar sem verða endurbættir og nýttir, en frá þeim þarf að leggja hliðarslóðir að nýjum möstrum.

Um helmingur þess lands sem fer undir nýjar slóðir, mastrastæði og efnisnámur er ógróið land. Engu að síður er rask á gróðurlendi umfangsmikið sökum lengdar línuleiðarinnar, 60 hektarar raskaðs lands er flokkað sem hálfgróið eða meira.

Niðurstaða Landsnets að á heildina litið verði ekki umtalsverð áhrif af línunni.

Vilja nýja brú á Jökuls á á Dal

Í afgreiðslu umhverfis- og framkvæmdanefndar Fljótsdalshéraðs eru engar athugasemdir gerðar við frummatsskýrsluna.

Nefndin hvetur Landsnet til að athuga hvort að vegurinn á Efri Jökuldal þoli þá þungaflutninga sem um hann þurfa að fara framkvæmdarinnar vegna. Eins er það skoðun nefndarinnar að framkvæmdin kalli á nýja brú yfir Jökulsá á Dal milli Hákonarstaða og Klaustursels.

Nefndin leggur áherslu á að framkvæmdin verði unnin í sátt við landeigendur, ábúendur og náttúruna, þá sérstaklega votlendis og gróðursvæða á Fljótsdalsheiði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.