Nokkur snjóflóð loka veginum um Hvalnes- og Þvottárskriður: Vart séð jafn mikinn jafnfallinn snjó

Nokkur snjóflóð loka veginum um Hvalnes- og Þvottárskriður og ekki er útlit fyrir að takist að opna veginn fyrr en seinni partinn í dag. Á Suðurfjörðum moksnjóaði seinni partinn í gær og nótt.


„Það er nýlega komin hjólaskófla á svæðið til að moka. Það eru nokkur flóð þarna en við vitum ekki almennilega hve mörg fyrr en hún fer að mjakast í gegn. Við búumst alveg eins við að skriðurnar séu meira og minna fullar,“ segir Jón S. Bjarnason, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Höfn.

Snjóflóðin eru afleiðing mikillar snjókomu í gærkvöldi. „Það moksnjóaði á stuttum tíma í Hamarsfirði, Álftafirði, Lóni og skriðunum. Það er um 60 sm jafnfallinn snjór í Álfafirði og Hamarsfirði. Ruðningsmaðurinn okkar hefur unnið þarna í áraraðir og hefur ekki séð annað eins.“

Búið er að ryðja frá Djúpavogi í Álftafjörð en vegurinn lokast við Þvottárskriðurnar þar sem fyrsta flóðið virðist hafa fallið en það síðasta vestan við Hvalnesskriðurnar, austan við Hlíðarsand. Óljóst er hve langan tíma tekur að opna. „Vonandi opnast þetta seinni partinn í dag.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.