Minni snjókoma í nótt en óttast var

Ekki hafa borist nein tíðindi af ofanflóðum á Austfjörðum í nótt en gripið var til rýminga á Seyðisfirði og Norðfirði í gærkvöldi. Útlit er fyrir lokanir á fjallvegum þar til á morgun.

Rýmd voru hús í útjaðri Seyðisfjarðarkaupstaðar og Neskaupstaðar klukkan tíu í gærkvöldi. Um leið gekk í gildi óvissustig vegna snjóflóða á Austfjörðum og hættustig á stöðunum tveimur.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands eru ekki líkur á frekari rýmingum í dag þar sem úrkoman í nótt var minni en spáð hafði verið. Það, sem og hvort rýmingunum frá í gærkvöldi, verði aflétt, ræðst af hvernig veðrið þróast í dag.

Gul viðvörun er í gildi til miðnættis vegna norðaustanhríðar. Samkvæmt veðurspám fer ekki að draga úr veðrinu af alvöru fyrr en um hádegi á morgun og áfram er spáð snjókomu víða á Austurlandi þar til á þriðjudagsmorgunn. Veðurstofan og almannavarnir eru í reglulegu sambandi til að meta stöðuna.

Vegunum yfir Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði og Fjarðarheiði var lokað í gær. Þeir verða á óvissustigi þar til á morgun. Ófært er um Vatnsskarð eystra og sú leið einnig á óvissustigi til morguns. Veginum yfir Fagradal var lokað í morgun. Ófært er í Fellum, Skriðdal, ofanverðum Jökudal og Heiðarenda. Annars staðar á Héraði er þæfingur en snjóþekja og skafrenningur til fjarða. Vegagerð og lögregla beina því til íbúa að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.

Viðbúið er að fólk utan rýmdra svæða finni fyrir óþægindum við þessar aðstæður. Því er bent á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Mynd: Unnar Erlingsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.