Miklar minjar í Heydölum

Miklar mannvistaleifar komu í ljós í fornleifakönnun sem gerð var í Heydölum síðasta sumar. Það kemur ekki á óvart enda heimildir um kirkju þar og búsetu frá miðöldum. Umfangsmikla rannsókn gæti þurft til að kanna svæðið frekar.


Fjórir könnunarskurðir voru teknir við Heydalakirkju í fyrrasumar þar sem fyrirhugað var að byggja Einarsstofu. Í nýútkominni skýrslu um rannsóknina segir að mismikla mannvist hafi verið að finna í skurðunum en fornminjar fundust í þeim öllum og ljóst að „miklar fornminjar“ séu á svæðinu.

Í Austurglugganum er haft eftir Rúnari Leifssyni, sem var minjavörður Austurlands á þessum tíma, að mikið magn minja hafi ekki komið á óvart. Búast megi við því þar sem byggð hafi verið lengi. „Könnunin staðfesti það sem við gerðum ráð fyrir,“ segir hann.

Heimildir eru til um kirkju að Heydölum frá árinu 1367. Í rannsókninni í fyrra kom í ljós torfveggur sem er undir gjóskulagi sem féll árið 1362. Mögulegt er talið að um kirkjugarðsvegg sé að ræða.

Þótt þetta sé elsta heimildin segir Rúnar líklegt að kirkja hafi verið að Heydölum enn fyrr og ekki sé útilokað að enn dýpra í jörðinni séu leifar frá víkingaöld.

Í niðurlagi skýrslunnar, sem rituð er af starfsmanni Fornleifastofnunar sem gerði skurðina, segir að rannsóknarefni séu ærin á stað sem Heydölum. Af nógu sé að taka hvort sem rannsókn tengist efnismenningu, húsagerð eða kirkjum staðarins.

Undir þetta tekur Rúnar og segir að „gríðarlega merkilegar“ minjar séu að Heydölum eftir „margra alda uppbyggingu á mannvistarleifum“. Frekari rannsókn gæti samt orðið afar flókin því fornleifar virðist um allt svæðið og menn viti ekkert hvernig svæðið sé undir grassverðinum.

Mælt fyrir könnunarskurðunum í fyrra. Rúnar Leifsson þáverandi minjavörður er lengst til hægri við hlið Gunnlaugs Stefánssonar, prests. Mynd: Hákon Hansson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.