Miklar áhyggjur af stöðu samgöngumála: Hvaða rugl er í gangi?

Bæjarráð Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs fara fram á að þingmenn tryggi aukið fjármagn til samgöngumála þannig að hægt verði að fara í þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á þessu ári samkvæmt samgönguáætlun. Samtökin Ungt Austurland telja tafir á uppbyggingu samgangna ganga gegn markmiði um bætt búsetuskilyrði á Austurlandi.


Ákvörðum samgönguráðherra um að slá af allar nýframkvæmdir í samgöngumálum á Austurlandi, einkum Berufjarðarbotn og Borgarfjarðarveg, hefur vægast sagt fallið í grýttan veg í fjórðungnum. Ástæðan er að tíu milljörðum munar á fjárveitingu Alþingis til samgöngumála og samþykktar í samgönguáætlun.

Hvetja þingmenn til að tryggja aukið fjármagn

Í ályktun sem bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti í gær er lýst yfir áhyggjum af áætluninni. Vert sé að horfa á aukningu umferðar um bæði Berufjörð og til Borgarfjarðar með fleiri ferðamönnum og flutningum.

„Eru þingmenn hér með hvattir til að leita leiða til þess að koma auknu fjármagni til vegakerfis landsins, m.a. með öryggisjónarmið að leiðarljósi sem og að horfa til langtímasjónarmiða við uppbyggingu innviða landsins í heild,“ segir í bókun.

Engin gæluverkefni

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs telur það óásættanlegt að ekki sé staðið við samgönguáætlunina, sem samþykkt var á Alþingi um miðjan október. Verkefnin í henni séu „sannarlega engin gæluverkefni heldur bráðnauðsynleg úrbótaverkefndi á samgöngukerfi sem komið er að fótum fram.“

Skorað er á þingmenn að ganga til verks þannig að hægt verði að fara í samþykktar framkvæmdir á Austurlandi á þessu ári og næsta. Enn fremur sé ljóst að fjárveitingar til samgöngumála verði að vera minnst 1,5% af vergri þjóðarframleiðslu til að hægt sé að viðhalda og byggja upp samgöngukerfið eins og þörf er á.

Neitum að láta hafa okkur að fíflum eina ferðina enn

Miðstjórn félagasamtakanna Ungt Austurland lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum með boðaðan niðurskurð á samgönguáætlun. Í ályktun samtakanna segir að nú sé kominn tími efna kosningaloforða.

„Ungir Austfirðingar neita að láta hafa sig að fíflum eina ferðina enn og krefjast þess að staðið verði við gefin loforð. Þingheimur, og þar með talinn samgönguráðherra Jón Gunnarsson, samþykkti rétt fyrir kosningar samgönguáætlun þar sem úrbótum á þessum vegum var lofað.

Þá virtust allir flokkar og frambjóðendur sammála um það í aðdraganda kosninga að uppbygging innviða í samgöngum um allt land væri mikið forgangsmál,“ segir í ályktun.

Ef þingmenn standa sig ekki er rétt að hleypa öðrum að

Spurt er hvaða rugl sé í gangi og bent á að ónýtir vegir gangi gegn tilgangi samtakanna um bætt búsetuskilyrði á Austurlandi. „Með ákvörðunum sem þessum vinna stjórnvöld beinlínis gegn því markmiði. Við það verður ekki unað.

Það er auðvelt að lofa öllu fögru í kosningabaráttu en nú er er tími efnda. Miðstjórn Ungs Austurlands skorar á alla þingmenn Norðausturkjördæmis að standa með Austfirðingum og tryggja að farið verði í framkvæmdirnar sem fyrst.

Ef þingmenn kjördæmisins geta ekki staðið sig í stykkinu og ætla að sitja hjá á meðan svæðið er vanrækt þá biðjum við þá vinsamlegast að stíga til hliðar og hleypa fólki að sem er tilbúið að gera raunverulegt gagn.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.