Mikill munur á veðri milli bæjarhluta í Neskaupstað í nótt

Björgunarsveitin Gerpir var kölluð út til að huga að hlutum sem voru að fjúka í Neskaupstað í miklu hvassviðri þar í nótt. Hvasst var í útbænum er mun rólegra innar.

„Við vorum kallaðir út rétt fyrir klukkan fjögur og vorum á ferðinni í um einn og hálfan tíma. Á einum stað fauk útikofi í rúðu á næsta húsi. Þar þurftum við að ferja og negla fyrir.

Síðan var talsvert af lausum ruslatunnum og fjúkandi rusli sem ekki verið fest nógu vel. Við tókum hring í bænum til að tína upp ruslatunnur, hjólbörur og fleira,“ segir Daði Benediktsson, formaður björgunarsveitarinnar Gerpis.

Samkvæmt mælingum frá Veðurstofu Íslands var hægur vindur um klukkan þrjú í nótt en nánast eins og hendi væri veifað hvessti. Stærsta hviðan mældist um klukkan fjögur, 46 m/s.

Í Neskaupstað er talað um svokölluð Nípukollsveður, sem fræg eru fyrir miklar hviður. Vindur stendur þá gjarnan af norðri eða norðaustri, eins og hann gerði í nótt, og nær sér niður meðfram Norðfjarðarnípunni. Daði segir að veðrið í nótt hafi borið einkenni Nípukollsveðurs en vart náð fullum styrk til að teljast sem slíkt.

„Í Nípukollsveðrum geta orðið miklar rokur utarlega í bænum en rólegra í innbænum. Munurinn verður þannig mikill eftir hvar þú ert í bænum og þannig var það í nótt.

Ég hef upplifað Nípukollsveður. Þá fuku heilu þökin af bílskúrum og þriggja tonna bílar færðust til úti á Bökkum. Þar var leiðindaveður í nótt en ekki af stærðargráðu alvöru Nípukollsveðurs.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.