Mikil þörf á hvers kyns valdeflingu

„Ég finn mikla þörf fyrir þessu innan fyrirtækja og í samfélaginu öllu,“ segir Helga Kristín Sæbjörnsdóttir frá Egilsstöðum, en hún er eigandi fyrirtækisins Valdefla, sem meðal annars verður með námskeiðið Valdefling kvenna á Laugarvatni um miðjan nóvember.


Helga Kristín ólst upp á Egilsstöðum en undanfarin ár hefur hún verið búsett með fjölskyldu sinni á Laugarvatni. Hún er menntaður Íþrótta- og heilsufræðingur frá Háskóla Íslands, er með diplómapróf í Ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum og útskrifaðist í febrúar síðastliðinn með masterspróf í Forystu- og stjórnun frá Háskólanum á Birfröst.

„Á Bifröst var mikið talað um „valdeflingu“ en það er nýtt og vaxandi hugtak í okkar flóru. Megin tilgangur Valdeflu er að ýta undir heilsueflingu, mæta þörfum þeirra sem þurfa á aðhaldi og hvatningu að halda. Aukin þekking og fræðsla er besta verkfærið ásamt markmiðasetningu þegar horft er til árangurs til langs tíma.

Námskeiðið í nóvember á að ýta undir hæfileika og ekki síður styrkleika þeirra kvenna sem það sækja. Þar verður unnið með markmiðasetningu undir handleiðslu og hugarfarsbreytingu með jákvæðri sálfræði. Ég myndi segja að þetta væri endurnærandi námskeið fyrir konur sem vilja ná betri árangri í lífi og starfi,“ segir Helga Kristín.

„Ég held að tækifærin séu núna“
Helga Kristín segist finna mikla þörf í samfélaginu fyrir hverskyns valdaeflandi vinnu, ekki síst inn í fyrirtækjum. „Ég held að tækifærin séu núna. Fyrirtækin eru farin að einblína frekar á vellíðan starfsfólks heldur en verkefnin sjálf og þannig að skapa betri menningu innan þeirra. Þetta verður til þess að starfsfólkið vinnur betur að sínum verkefnum og þau ganga ósjálfrátt betur.“

„Það er frábært að láta drauma sína rætast“
Sjálf sagði Helga Kristín upp sinni vinnu til þess að einbeita sér að uppvexti Valdeflu. „Ég var voðalega kokhraust,“ segir hún og hlær. „Það er frábært að láta drauma sína rætast. En því fylgja líka blendnar tilfinningar. Það er ótrúlega skemmtilegt og maður fær fiðrildi í magann en svo koma alveg tímar þar sem ég hef spurt mig hvort ég sé að gera rétt. Verkefnin koma ekki upp í hendurnar á manni og þetta getur verið ótrúlegt hark. En það er klárlega þess virði og er ótrúlega mikill skóli, hvort sem maður er að stofna fyrirtæki eða ekki, bara að standa á eigin fótum og reyna að sjá fyrir sér næstu skref, það er mjög lærdómsríkt.“

Valdefla er líka á Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.