Metsöluhöfundurinn mætir sjálfur í útgáfuhófið

„Stór og stækkandi hópur lesenda er farinn að bíða eftir bókunum sem hafa komið út á vorin, síðustu tvö ár,“ segir Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Bókstafs á Egilsstöðum, en föstudaginn 9. júní gefur forlagið Bókstafur út þriðju bók írska metsöluhöfundarins Marian Keyes.


Vatnsmelóna er fyrsta bók höfundar og kom fyrst út 1995. Hún var upphafið að glæstum ferli og eftir hana liggja nú þrettán skáldsögur sem allar hafa farið sigurför um heiminn, lent á metsölulista og fengið ýmis verðlaun. Vatnsmelóna er þriðja bókin sem kemur út hjá Bókstaf í þýðingu Sigurlaugar Gunnarsdóttur, hinar heita Rachel fer í frí og Er einhver þarna?

Vatnsmelóna (Watermelon) var valin „Fresh Talent“ bók í Bretlandi þegar hún kom út þar, Er einhver þarna? (Anybody out there) fékk bresku Book verðlaunin í flokki vinsældabókmennta og This Charming Man (sem er í þýðingu hjá Bókstaf) fékk írsku Book verðlaunin í flokki vinsældabókmennta. Bækur Keyes hafa verið gefnar út á 33 tungumálum og selst í yfir 30 milljónum eintaka.

Höfundur og þýðandi lesa upp
„Svo vel ber í veiði að höfundurinn sjálfur er staddur á landinu og mætir í útgáfuhóf í Eymundsson Austurstræti sem haldið verður á föstudaginn milli klukkan 17.00 og 19.00. Hún er stödd í fríi hér á landi og hafði samband við Bókstaf og langaði til að hitta forsprakkana sem við að sjálfsögðu þáðum og buðum henni í útgáfuhófið sem hún samþykkti.

Þarna munu höfundur og þýðandi lesa upp úr bókinni og aldrei að vita nema Marian fáist til að árita nokkur eintök, en hinar tvær bækurnar sem Bókstafur hefur gefið út eftir hana verða á sérstöku tilboði í Eymundsson í tilefni dagsins.

Við hjá Bókstaf erum mjög ánægðar með að geta kynnt þennan dásamlega höfund fyrir lesendum sínum í eigin persónu. Margir eru farnir að bíða spenntir eftir að bækurnar hennar komi út hjá okkur svo þetta verður einstaklega skemmtilegt partí. Í gangi eru samningaviðræður við umboðsmann hennar um tvær bækur í viðbót sem eiga að koma út á næsta á næsta ári,“ segir Sigríður Lára.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.