„Menn eru annað hvort englar eða djöflar í umræðunni um fiskeldi“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, boðar tvö ný lagafrumvörp um fiskeldi á Alþingi í vetur sem hann telur að breyta muni miklu fyrir greinina. Hann kallar eftir aukinni sanngirni í umræðu um eldið sem sem sé í dag stunduð úr skotgröfum.

„Kúltúrinn er að vera niður í skotgröfunum, fara annað slagið upp á miðjuna til að ausa úr sér og svo ofan í þær aftur. Meðan þetta er svona miðar okkur ekki rassgat í bala áfram,“ sagði ráðherrann á opnum fundi í Valhöll á Eskifirði á mánudagskvöld.

Þar kynnti Kristján að hann hygðist í nóvember leggja fram frumvarp um heildarendurskoðun laga um fiskeldi og í febrúar annað um gjaldtöku vegna eldissvæða í sjó. „Lagaramminn sem stjórnvöld bjóða greininni er úr sér genginn og hentar ekki. Meðan ný löggjöf er ekki fyrir hendi gerist ekkert. Það snýr að mér að ná saman pólitíkinni til að breyta lögunum.“

Miklir hagsmunir í skynsamlegu eldi

Kristján Þór tók við sem ráðherra í lok síðasta árs og kvaðst ekki hafa setið fleiri fundi vegna nokkurs annars máls en eldisins síðan. Hann hefði einnig farið bæði til Noregs og Færeyja til að kynna sér hvernig þar væri staðið að eldi.

Hann benti á að Norðmenn ælu 1,3 milljónir tonna af fiski árlega og stefndu í fimm milljónir tonna. Færeyingar framleiddu 85-90 þúsund tonn en Ísland 10 þúsund. „Það eru gríðarlegir hagsmunir í því fyrir okkur sem þjóð að byggja upp eldi á skynsaman hátt. Verðmæti sjávarafla okkar er um 150 milljarðar en 80-90 þúsund tonna eldi eru 70 milljarðar.“

Framganga sem ekki er fólki sæmandi

Hann sagði árangur Færeyinga og Norðmanna byggja á samvinnu þeirra sem vildu vernda náttúruna, fiskeldisfyrirtækjanna, vísinda og stjórnvalda. Hún væri hins vegar ekki til á Íslandi.

„Ég lagði fram frumvarp í vor um fiskeldi sem byggði á samkomulagi veiðiréttarhafa og fiskeldisfyrirtækja. Það var eins og við manninn mælt að um leið og það kom fram fóru allir út um víðan völl og í skotgrafirnar.

Menn eru ýmist englar eða djöflar í þessari umræðu. Það er snúið að ná saman pólitíkinni, ekki af því menn vilji ekki ná saman, heldur því óbilgirnin er svo mikil því það eru svo miklir hagsmunir undir.

Af hálfu náttúruverndarinnar hafa sumir hafa farið fram með hætti sem er ekki fólki sæmandi,“ sagði Kristján Þór og tiltók sérstaklega framgöngu Óttars Yngvasonar, lögmanns veiðiréttarhafa.

Sammála um að Hafró sé vonlaus stofnun

„Fyrirtækin eru ekki samstíga í sínum áherslum og bítast innbyrðist. Fulltrúar þeirra og veiðiréttarhafa virðast ná saman um einn hlut, að Hafrannsóknastofnun sé algjörlega vonlaus stofnun.

Við höfum sagt að það sem gert er í fiskeldi eigi að byggja á vísindum og rannsóknum. Ég veit að það er sumt umdeilt en við verðum einhvers staðar að hafa fótfestu. Hafró er eina vísindastofnunin á þessu svið og ég ætla að nota hana. Ég veit að það er ekki allt rétt sem hún gerir, hún á að fá gagnrýni og þurfa að rökstyðja sitt mál, en þeir sem glíma við hana verða að þola að hún sé oft á öndverðum meiði við þá.“

Fundurinn var liður í ferð Kristjáns um landið þar sem hann kynnti reglubreytingar frá ráðuneytinu. Fundaferðin dróst aðeins eftir að úrskurðarnefnd umhverfismála felldi úr gildi starfsleyfi tveggja fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum. Að lokum samþykkti Alþingi lög sem framlengdu starfsleyfin. „Við vorum að forða því stórslysi sem úrskurðarnefndin hafði búið til,“ sagði Kristján.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.