Margrét Gauja: Ef þú vilt verða tannlæknir þarftu að drepa þann sem fyrir er á staðnum

Ungmenni á landsbyggðinni geta haft stórar hugmyndir um framtíð sína í heimabyggð en vita ekki endilega hvaða farveg þau geta fundið þeim. Mikill ávinningur fáist með því að veita þeim stuðning.


„Þau vita að þau skortir frumkvæðið því þau vita ekki hvernig þau eiga að vera virkir þátttakendur,“ sagði Margrét Gauja Magnúsdóttir, fyrrum náms- og starfsráðgjafi við Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á ráðstefnu um hagi ungs fólks á landsbyggðinni sem haldin var á Breiðdalsvík fyrir skemmstu.

Margrét Gauja hefur langa reynslu af vinnu með ungu fólki og kom austur á Höfn sumarið 2014. Hún lýsir krökkunum þar eins og „hungruðum hundum sem tóku við öllu sem að þeim var rétt“ þegar farið var af stað með fræðslu meðal annars í jafnréttismálum. „Það réttist úr bakinu á þeim þegar þau fengu tæki og tól til að gera það sem þau vildu.“

Útkoman varð meðal annars að krakkar fóru að koma út úr skápnum og stofnað var hinsegin félag í FAS. Fleiri mættu í druslugöngu sem krakkarnir skipulögðu en á 17. júní og þau fóru fram á að á þau væri hlustað innan bæjarkerfisins.

Þarf meira en þorrablót einu sinni á ári

Samkvæmt nýjum rannsóknum skiptir það að hafa tilgang mestu máli fyrir líðan og heilsu ungmenna heldur en hamingjan sjálf. Margrét sagði ungmennin á Höfn hvorki hafa upplifað sig sem þátttakendur í samfélaginu né nærveru þeirra eða skoðana hafi verið óskað. Þau upplifi sig fædd inn í kassa og fátt hafi verið boði fyrir þau félagslega.

„Það þarf meira en þorrablót einu sinni á ári þar sem allir hrynja í það. Karlarnir hittust í Kiwanis og konurnar í mismunandi saumaklúbbum og baktöluðu þær sem voru í hinum klúbbunum. Það er mikill áhugi ungs fólks fyrir sjálfboðaliðastörfum á Höfn því þau gera sér grein fyrir ágóðanum. Björgunarsveitin var það eina sem var í boði og þau fældust frá henni því það voru allir að drukkna í að bjarga ferðalöngum út um allt.“

Atvinnumöguleikarnir séu líka takmarkaðir. Dulin stéttskipting sé innan fyrirtækja þar sem þeir sem eiga ættingja á réttum stöðum eigi meiri möguleika að fá vinnu. Erfitt geti verið að fá vinnu eftir að hafa sótt sér vinnu. „Það kom til mín stúlka sem vildi verða tannlæknir en til að fá starf á Höfn þyrfti hún að drepa þann sem fyrir væri .“

Landsbyggðin þarf meiri femínisma

Margrét Gauja segir nauðsynlegt að ræða stöðu ungs fólks á landsbyggðinni þar sem nýjustu rannsóknir benda til að líðan þeirra, einkum stúlkna, sé verri en annars staðar. Niðurstöðurnar úr FAS hafi verið sláandi.

„Landsbyggðin þarf meiri femínisma. Jafnréttisfræðslan eflir ekki bara stelpur. Eftir jafningjafræðslu voru allir strákarnir í bleikum bolum sem á stóð „ég er femínisti.“

Það kom til mín strákur sem brotnaði saman þegar hann sagði mér frá því hvernig talað væri um stelpur í fótboltaklefanum. Hann gekk út næst þegar það gerðist. Hann öðlaðist loks styrk til að segjast ekki taka þátt í þessu lengur.

Ungu konurnar hafa framtíðarvæntingar. Þær vita alveg hvað er að gerast í heiminum og borginni og ætla sér að ná langt. Ungt fólk vill búa í litríku samfélagi og fer til Reykjavíkur því það heldur að samfélagið sé þannig þar. Þetta verða sveitarfélögin að fara að taka alvarlega.“

Hræðilegt að fá barn í fangið aftur tveimur dögum eftir sjálfsvígstilraun

Margrét Gauja minntist sérstaklega á stöðu geðheilbrigðismála á landsbyggðinni. „Kynferðisbrotamál úti á landi eru erfið og drusluskömmin mjög rík. Aðgangur að geðheilbrigðisþjónustunni er í mjög vondum málum. Það er hræðilegt að senda barn á BUGL eftir sjálfsvígstilraun og fá það aftur tveimur dögum síðar. Á mínum tíma í FAS sendum við bara stelpur.“

Meðal þess sem ráðist var í á Höfn var alþjóðlegt verkefni sem kallast LUV: Lýðræðisvitund og valdefling ungmenna á landsbyggðinni með samstarfsaðilum úti í Evrópu og sjálfsstyrkingar námskeiðið Vertu þú sjálfur.

Margrét Gauja hvatti sveitarfélög til að úthluta ungmennum áhrif á eign málefni og finna fólk til að vinna með þeim sem kann til verka. „Ráðið alvöru fólk. Ekki treysta á að reka félagsmiðstöðvarnar á stúdentum sem eru að bíða eftir að fara í háskóla á sama tíma og Háskóli Íslands dælir út frístundafræðingum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.