Magnús Þór: Samkeppnishæft raforkuverð grunnforsenda samkeppnishæfni íslensks áliðnaðar

Forstjóri Alcoa Fjarðaáls segir íslensku álverin halda velli þrátt fyrir samdrátt í álframleiðslu á heimsvísu en til þess þurfi samkeppnishæfni þeirra, sem byggi á raforkuverði, að vera tryggð. Hann segir ál mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr og spáir byltingu með tilkomu rafhlaðna úr áli.


Þetta kom fram í ávarpi Magnúsar Þórs á ársfundi Samáls, samtaka álfyrirtækja á Íslandi, en hann er stjórnarformaður samtakanna.

Útflutningstekjur íslensku álveranna þriggja námu í fyrra 237 milljörðum króna eða um 37% af vöruútflutningi þjóðarinnar. Starfsmenn þeirra voru 1450 og fastir starfsmenn undirverka 530.

Innlendur kostnaður álveranna var 92 milljarðar og hækkaði um 10 milljarða á milli ára. Í nýlegri skýrslu er áætlað að heildarframlag álklasans, sem er samvinnuvettvangur fyrirtækja í áliðnaði, er áætlað að heildarframlag hans til landsframleiðslu sé tæp 10%

Á sama tíma hafa móðurfyrirtæki íslensku álfyrirtækjanna mætt samdrætti á markaði með að draga úr framleiðslu og loka eldri og óhagkvæmari álveru.

„Íslensku álverin hafa haldið velli í þessum dansi og ég vona að við séum öll sammála um að mikilvægt sé að þau geri það áfram – en til þess þarf samkeppnishæfni að vera tryggð.

Til að jafn öflugur iðnaður byggist upp á okkar litla landi þarf samkeppnishæfni að vera til staðar. Grunnforsenda fyrir samkeppnishæfni áliðnaðar á Íslandi er samkeppnishæft raforkuverð. Fjárfestingar leita þangað sem samkeppnishæfnin er mest,“ sagði Magnús.

Landsvirkun og Norðurál á Grundartanga endurnýjuðu nýverið samning um raforkuverð eftir langar deilur. Verðið er ekki lengur tengt álverði heldur markaðsverði á rafmagni.

Erindi Magnúsar bar yfirskriftina „ál mikilvægara en nokkru sinni fyrr.“ Þar benti hann á framtíðarmöguleika áls, til dæmis í rafhlöðum.

Von er á að álhlöður komi í stað lithíum-rafhlaðna. Endingartími þeirra á að vera betri, hleðslutími styttri og þær öruggari með tilliti til eldhættu. Vonir standa til að þær geti nýst við að búa til geymslu fyrir umframorku úr endurnýtanlegum orkugjöfum frá vind og sók.

Álrafhlöðurnar gætu orðið bylting í uppbyggingu farartækja sem ganga fyrir rafmagni. Álið á einnig að vera ódýrara en lithíum auk þess sem það er endurvinnanlegt.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.