Mæla gegn áramótabrennum

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi mælist til þess að engar áramótabrennur verði í fjórðungnum um komandi áramót vegna Covid-19 faraldursins.

Í tilkynningu aðgerðastjórnarinnar í dag kemur fram að brennurnar hafi verið ræddar á síðustu fundum nefndarinnar. Í ljósi aðstæðna og gildandi aðstæðna sé því beint til sveitarfélaga að standa ekki fyrir brennum í ár.

Þá greinir einnig frá því að aðgerðastjórninni hafi borist fyrirspurnir um hvort hægt sé að opna skíðasvæði. Mat hennar er að svo sé ekki þar sem reglur um bann við íþróttaiðkun fullorðinna eigi einnig við um skíðasvæði.

Ekkert smit er á Austurlandi og enginn í sóttkví.

„Aðgerðastjórn bendir og á að í gegnum COVID mistrið megi nú glitta í fast land. Óvíst er þó hversu löng sigling er eftir. Þrautseigja og þolgæði okkar skipverja eru því ágæt einkunnarorð að styðjast við í þeirra stöðu.

Því áréttar stjórnin hefðbundna möntru sína um að gæta að persónubundnum sóttvörnum, huga að fjarlægðarmörkum og grímunotkun, handþvotti og sprittun.

Höldum siglingunni áfram, gætum að skerjum og komumst þannig saman að landi heil og ósködduð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar