Lýsa upp byggingar til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi

Soroptimistaklúbbur Austurlands er meðal þeirra sem taka þátt í alþjóðlegu átaki um vitundarvakningu um útrýmingu kynbundins ofbeldis. Kirkjur og nokkrar opinberar byggingar í Múlaþingi eru af því tilefni lýstar upp með appelsínugulum lit.

Kveikt var á ljósunum klukkan 16 í gær við Safnahúsið á Egilsstöðum, Lindarbakka á Borgarfirði og skrifstofur sveitarfélagsins á Seyðisfirði og Djúpavogi.

Þá hafa kirkjurnar á Seyðisfirði og Egilsstöðum verið sveipaðar hinum appelsínugula, eða roðagyllta, lit auk kirkjugarðsins á Borgarfirði eystra. Hérlendis sem erlendis er átakið er kennt við litinn sem táknar bjartari framtíð en slagorð þess er „Roðagyllum heiminn.“

Er fólk hvatt til að sýna samstöðu með baráttunni með að klæðast appelsínugulu og birta myndir á samfélagsmiðlum þar sem appelsínuguli liturinn er áberandi undir myllumerkinu #roðagyllumheiminn2020. Mikilvægast er þó að sýna alltaf í vilja og verki andstöðu gegn hvers konar ofbeldi.

16 daga átak

Það eru Sameinuðu þjóðirnar sem hafa útnefnt 25. nóvember sem dag vitundarvakningar gegn kynbundnu ofbeldi. Átakið stendur næstu 16 dagana, eða til 10. desember sem er bæði mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegur dagur Sorptimista.

Á þessu tímabili verður vakin athygli á stöðu þeirra milljóna kvenna sem verða fyrir ofbeldi, bæði hér heima og erlendis. Markmiðið er líka að minna á þá skömm og niðurlægingu sem fylgir slíku ofbeldi þótt ábyrgðin ætti að öllu leyti að hvíla á gerandanum.

Austfirðingar í fararbroddi

Soroptimistaklúbbur Austurlands mun dreifa veggspjöldum og vekja athyglinni á baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi næstu daga. Þetta er í fjórða sinn sem hann tekur þátt í hinu alþjóðlega átaki en klúbburinn var sá fyrsti á Íslandi til að taka þátt í því. Undanfarin ár hefur verið staðið fyrir ljósagöngu en af henni verður ekki í ár vegna samkomutakmarkana.

Soroptimistasamband Íslands hefur látið framleiða fræðslumyndbönd gegn ofbeldi, sem aðgengileg eru á vef þess, soroptimist.is með enskum texta og hafa þau vakið athygli út fyrir landssteinana.

Félagar úr Soroptimistaklúbbi Austurlands við Safnahúsið á Egilsstöðum þegar kveikt var á ljósunum í gær.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar