Lyklaskipti í Fljótsdal

Helgi Gíslason, nýr sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, var boðinn formlega velkominn á fundi sveitarstjórnar þar í dag. Við sama tækifæri var fráfarandi sveitarstjóra, Gunnþórunni Ingólfsdóttur, færðar þakkir fyrir störf hennar fyrir sveitarfélagið í um tvo áratugi.

Gunnþórunn tók við sem sveitarstjóri og oddviti í júní árið 2001. Hún lét af störfum oddvita í byrjun mars og sveitarstjóri um síðustu mánaðarmót. Jóhann F. Þórhallsson, oddviti, þakkaði Gunnþórunni fyrir störf hennar fyrir sveitarfélagið við upphaf fundar í dag.

Hann rifjaði upp að á þessum tíma hefði mikil vinna verið í höndum sveitarstjóra við að leiða skipulagsvinnu og annan undirbúning og utanumhald vegna byggingu Kárahnjúkavirkjunar og stöðvarhúss hennar hennar í dalnum.

Í kjölfarið hefði síðan farið af stað uppbygging innviða í dalnum. Vissulega hefði sveitarstjórn staðið saman að henni en það reyndi samt mikið á að vera eini starfsmaður sveitarfélagsins á ársgrundvelli og fara fyrir vinnunni. Það hefði Gunnþórunni farist vel úr hendi.

Jóhann benti einnig á að hún hefði á þessum tíma mætt á hvern einasta sveitarstjórnarfund, nema örfáa sem hún hefði ekki getað setið vegna vanhæfis.

Gunnþórunni var afhentur blómvöndur og birkiplanta frá sveitarfélaginu við þessi tímamót. Hún mun sitja áfram í sveitarstjórn sem kjörinn fulltrúi. Hún þakkaði fyrir hlý orð í sinn garð og notaði tækifærið til að bjóða nýjan sveitarstjóra, Helga Gíslason velkominn til starfa. Hún kvaðst bera til hans miklar væntingar en vera sannfærð um að vel hefði tekist til að nýjan sveitarstjóra.

Jóhann tók undir það. Starfið var auglýst og sóttu sautján um. Hann sagði umsóknarferlið hafa verið erfitt því margar góðar umsóknir hefðu borist en á endanum hefði sveitarstjórn verið einhuga um niðurstöðuna. Hann kvaðst þekkja Helga vel en þó hafa orðið hissa þegar hann hringdi og sýndi áhuga á starfinu.

Helga var afhent eintak af byggðarsögu hreppsins, Fljótsdælu, áritað af höfundinum Helga Hallgrímssyni. „Ég þakka góð orð í minn garð. Það sem ég hef lært á fáum dögum í starfinu er hvað þetta er umfangsmikið,“ sagði nýi sveitarstjórinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.