LungA fær að öllu óbreyttu viðurkenningu fyrir áramót

Arnar Sigbjörnsson sérfræðingur í framhaldsskólamálum hjá Menntamálastofnun segir að öllu óbreyttu muni LungA lýðskóli á Seyðisfirði fá viðurkenningu sem menntastofnun fyrir áramót.

Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Austurfréttar um stöðu umsóknar LungA frá því í september. Umsóknin byggir á lagabreytingu í fyrrasumar og reglugerð sem gefin var út í apríl s.l. um viðurkenningu lýðskóla.

„Eins og ráð var fyrir gert sendi LungA skóli inn umsókn um viðurkenningu til Menntamálastofnunar nú í september og er afgreiðsla hennar í vinnslu,“ segir í svari Arnars.

 „Menntamálastofnun gefur sér allt að tólf vikur til að vinna umsókn og fylgigögn að því gefnu að ekki þurfi að kalla eftir frekari gögnum eða skýringum á einstökum þáttum umsóknar.“

Mikið í húfi fyrir bæinn

Í geinargerð um menningarmál sem nýlega var lögð fyrir bæjarstjórn Seyðisfjarðar segir að...“Það er mjög mikið í húfi fyrir bæinn að þetta ferli (umsóknin innsk, blm.) gangi vel þar sem sú viðurkenning mun tryggja starf hans áfram.“

Ennfremur segir að starf það sem LungA lýðskólinn hefur byggt upp á Seyðisfirði hefur haft ómæld áhrif fyrir bæjarfélagið, sérstaklega yfir vetrartímann.

„Skólinn hefur skapað ný og spennandi störf, bætt lífsgæði með aukinni þjónustu, tryggt fyrirtækjum fastar tekjur á lágönn og síðast en ekki síst laðað að ungt fólk til staðarins til náms og upplifunar.“ segir í greinargerðinni.

„LungA lýðskólinn er fyrirmynd um hvernig er hægt að styðja við landsbyggðina. Bæjarfélagið hefði viljað styðja betur fjárhagslega við skólann á síðustu árum. Það hefur því miður ekki tekist þar sem mikið er af menningarverkefnum á borði bæjarins og fjármagn takmarkað. Seyðisfjarðarkaupstaður er í hópi þeirra sveitarfélaga í landinu sem leggur hvað mest fjármagn til menningarmála sem hlutfall af skatttekjum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.