Lokið við umdeildan strandblakvöll

Verið er að klára að fylla upp í nýjan strandblakvöll á Vopnafirði við Lónabraut. Íbúar í nágrenninu mótmæltu framkvæmdinni þar sem þeir töldu af henni geta skapast skemmdir og ónæði.


Byrjað var á framkvæmdinni í fyrra en hægt á henni eftir að fram komu athugasemdir nágranna. Svo fór að fimmtán íbúar undirrituðu yfirlýsingu í byrjun sumars til sveitarstjórnar með mótmælum.

Þar lýsa íbúarnir þeirri skoðun sinni að staðsetningin við Lónabraut „sé ekki heppileg.“ Bent er á sandfok sem aldrei verði hægt að koma í veg fyrir, ónæði vegna hávaða, ónæði því leikmenn komi til að sækja bolta í garða neðan við völlinn og skemmdir geti orðið af skoppandi bolta. Þær hafi þegar orðið af boltum á sparkvelli á sama svæði. Að lokum er bent á að framtíðaríþróttasvæði bæjarins sé ofan við byggðina.

Í svöum skipulags- og umhverfisnefndar segir að notaður sé sambærilegur sandur og í öðrum strandblakvöllum sem hafi „lítið fokgildi.“ Breitt verði yfir völlinn „við ákveðnar aðstæður“ ef þess reynist þörf.

Vísað er til lögreglusamþykktar vegna hávaða þar sem segir að lögregla geti vísað mönnum í burtu af almannafæri valdi þeir vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði. Þá er gert ráð fyrir að lengja girðingu við skólalóðina til að koma í veg fyrir að boltanir fari niður í garða eða valdi skemmdum.

Sveitarstjórn samþykkti því að ljúka við völlinn. Staðan verði metin að loknu sumri 2017.

Frá ársbyrjun 2010 hefur verið starfandi blakhópur kvenna sem kallast Fjaðrir. Félagið hefur haldið úti æfingum á staðnum og verið með tugi iðkenda í krakkablaki.

Frumkvæði að vellinum og staðsetningu vallarins kom frá félaginu. Í erindi félagsins segir að skólasvæðið sé góður kostur því þar séu börn að leik auk þess sem stutt sé í tjaldsvæðið þannig að gestir geti nýtt völlinn. Þá sé skjól af skólahúsnæðinu sem auka megi við með að gróðursetja runna.

Strandblak nýtur vaxandi vinsælda hérlendis og er áætlað að milli 40 og 50 slíkir vellir séu í landinu, meðal annars á Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði og í Neskaupstað.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.