Löggæslukostnaður: Neistaflug rukkað um kostnað sem þau voru ekki sátt við

Allur gangur virðist vera á því hversu háar upphæðir skipuleggjendur hátíðarhalda á Austurlandi hafa þurft að greiða í löggæslukostnað í sumar.

Skipuleggjendur hafa fengið þær skýringar á upphæðunum sem þeir eru rukkaðir um að þær séu reiknaðar út miðað við áætlaðan aukakostnað við löggæslu. Ekki virðist þó vera samræmi milli ára um það hversu mikill kostnaðurinn er fyrir einstakar hátíðir. Erfitt er að bera saman hátíðirnar þar sem misjafnt er hversu mikil dagskrá er skipulögð af einum og sama aðilanum.

Á Neistaflugi í Neskaupstað stendur Neistaflugsnefndin til að mynda ekki fyrir kvölddagskrá í Egilssbúð, það gera rekstaraðilar í Egilsbúð. Tónlistarhátíðin Bræðslan á Borgarfirði eystra stendur að sama skapi aðeins fyrir einum tónleikum á laugardagskvöldi en aðilar óháðir þeim fyrir annari dagskrá.

Skipuleggjendur Neistaflugs ekki sátt
Skipuleggjendur Neistaflugs voru ekki sátt við þá upphæð sem átti að rukka þau um í löggæslukostnað. Svanlaug Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Neistaflugs, vill ekki gefa upp hver sú upphæð var en segist vita að hún hafi verið hærri en til að mynda Bræðslan og Franskir dagar voru rukkuð um. „Við vorum rukkuð um kostnað sem við vorum ekki sátt við og fórum því í samningaviðræður við lögreglustjórann með aðstoð bæjarstjóra. Við náðum sáttum en líklega verður það endurskoðað eftir helgi,“ segir Svanlaug en hún segir að skýring þessa hærri kostnaðar sé stærð hátíðarinnar. „Ég vil ekki meina að okkar hátíð sé mjög fjölmenn en dagskráin er yfirgripsmikil,“ segir hún og heldur áfram. „Þetta þykir mér ekki endilega sanngjarnt, við teljum ekki þurfa mikið aukna löggæslu á hátíðinni miðað við venjulega vegna okkar dagskrár. Við erum með björgunarsveit í gæslu á vettvangi þar sem við teljum þörf á, þegar við erum með opinn eld eða erum við sjó til dæmis.“

Miklar breytingar á milli ára
Aðstandendur Vopnaskaks og Hammondhátíðar á Djúpavogi voru ekki rukkaðir um löggæslukostnað. Tónlistarhátíðin Bræðslan borgaði 70.000 krónur í löggæslukostnað á þessu ári og í fyrra en að sögn Magna Ásgeirssonar, skipuleggjanda tónleikanna, var það í fyrsta skipti sem löggæslukostnaður var rukkaður. „Þetta fylgdi því bara þegar lögregluumdæmin breyttust, þá fóru þeir að rukka okkur en við vorum búnir að halda tónleikana í 10 ár án þess að greiða þennan kostnað,“ segir Magni.

Stefán Magnússon, aðalskipuleggjandi Eistnaflugs á Neskaupsstað, segir að þau hafi verið rukkuð um í kringum hálfa milljón undanfarin ár. Eistnaflug þurfti fyrst að greiða löggæslukostnað árið 2010 en þá hafði hátíðin verið haldin fimm sinnum án rukkunar.

Aðstandendur LungA á Seyðisfirði voru rukkaðir um í kringum 150.000 og aðstandendur bæði Franskra daga á Fáskrúðsfirði og Stöð í stöð á Stöðvarfirði um 130.000. Að sögn Einars Tómasar Björnssonar, skipuleggjanda hátíðarinnar Stöð í stöð, fengust 55.000 krónur endurgreiddar að hátíðinni lokinni vegna þess að kostnaður við löggæslu hafi orðið minni er ráð var gert fyrir.

María Óskarsdóttir, formaður skipulagsnefndar Franskra daga segir erfitt að átta sig á rökstuðningnum að baki löggæslukostnaðinum. „Við höfum þurft að borga allskonar upphæðir, allt uppí 200.000. Maður veit ekkert hver talan verður fyrr en rukkunin kemur. Við í nefndinni höfum staðið fyrir ballinu sjálf undanfarin ár en á sínum tíma stóðu einkaaðilar fyrir dansleiknum, sem voru með eigið skemmtana og vínveitingaleyfi. Það virtist ekki endilega hafa áhrif á löggæslukostnaðinn,“ segir María.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.