Loðnugöngur við Papey ekki efni í veiðikvóta

Hafrannsóknastofnun telur að loðnuganga, sem sást skammt undan Papey á sunnudag, hafi verið mæld fyrr í mánuðinum í skipulögðum leitarleiðangri. Áfram verður fylgst með stöðunni á miðunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin sendi frá sér í morgun. Börkur, skip Síldarvinnslunnar, Polar Amaroq, skip grænlensks dótturfélags Síldarvinnslunnar og Hákon EA kortlögðu á sunnudag fremsta hluta loðnugöngu á svæðinu.

Hafrannsóknastofnun hefur fengið í hendur bergmálsgögn af mælum skipanna og er bráðabirgðamat að þarna sé nálægt 90 þúsund tonn af loðnu. Stofnunin telur, út frá fyrirliggjandi gögnum, líkur á að umrædd loðnuganga sé sú sama og var mæld út af norðausturhorninu fyrr í mánuðnum. Niðurstöðurnar niðurstöður gefa ekki tilefni til breyttrar ráðgjafar um veiðar.

Um var að ræða stóra hrygningarloðnu, en á Hafrannsóknastofnun er nú verið er að vinna loðnusýni frá svæðinu. Takmörkuð yfirferð veiðiskipa á sunnudag er sú fjórða í röðinni á árinu, engin hinna þriggja fyrri sem allar voru heildstæðari gaf tilefni til ráðgjafar um að opna fyrir veiðar.

Hafrannsóknastofnun fylgist áfram með þróun á loðnumiðum í samráði við útveginn og mun fara yfir skráningar Polar Amaroq sem er áfram á miðunum jafnharðan og þær berast.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar