Líkur á rafmagnstruflunum í rokinu

Landsnet varar við að rafmagnstruflanir geti orðið á Austurlandi í miklu hvassviðri sem spáð er á svæðinu í kvöld og á morgun.

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugulaviðvörun vegna norðvestan ofsaveðurs á Suðausturlandi, Austfjörðum og Austurlandi að Glettingi frá klukkan þrjú í nótt til 18 á morgun, laugardag.

Í tilkynningu frá Landsneti segir að mjög hætt sé við samslætti og/eða fokskemmdum á raflínum. Einkum á það við svæði sem afmarkast af Vopnafirði, Möðrudalsöræfum, Fljótsdalshéraði, Austfjörðum og suður með ströndinni á Breiðamerkursand.

Í færslu frá veðurstofunni Bliku segir óveðrið sé af sérstakri gerð því vindstrengurinn sé knúinn áfram af hitamund á milli Jan Mayen og Grænlands. Gert er ráð fyrir vind í fjallahæð yfir Austfjörðum upp á 50 m/s og hefur vindstyrkurinn aukist í síðustu spám.

Bent er á að vindurinn sé verulega truflaður yfir fjöllunum og nái miklir hnútar og fjallaköst niður fjallshlíðarnar.

Við svipaðar aðstæður hafi áður orðið foktjón, svo sem í Neskaupstað, á Seyðisfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og á Fljótsdalshéraði, meðal annars í Jökulsárhlíð. Þá séu rafmagnstruflanir í einhverju mæli líklegar.

Varað er við að ekkert ferðaveður verði á meðan veðrið gengur yfir auk þess sem Austfirðingum er ráðlagt að hefta lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.