Líklegast talið að hlíðin hætti að skríða: Ekki enn vitað hvað veldur

Mesta hreyfing sem mælst hefur á jarðskriðinu fyrir ofan Helgustaðahrepp eru tveir metrar síðan byrjun nóvember. Sérfræðingur telur líklegast að skriðið hætti en áfram verður fylgst með hreyfingum og ráðist í frekari rannsóknir þegar snjóa leysir.


Þetta kom fram í máli Hörpu Grímsdóttur, sérfræðings hjá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands, á íbúafundi á Eskifirði í gærkvöldi.

Fyrstu vísbendingar um jarðskrið sáust þann 4. nóvember síðastliðinn og tveimur dögum voru hús rýmd vegna rigningarspár og óvissustigi lýst yfir. Óvissustigið hefur verið í gildi síðan.

Í björtu þá helgi sást að hlíðin hafði skriðið af stað. Aðallega er um að ræða skrið á tveimur svæðum ofan Engjabakka og Högnastaði. Þar hefur verið komið upp mælipunktum og er mesta hreyfing á einum mælipunkti tveir metrar síðan í byrjun nóvember.

Harpa sagði líklegast að skriðið hefði byrjað efst með mikilli hreyfingu og hún skilaði sér síðan áfram niður.

Aukið grunnvatn líklegasti sökudólgurinn

Ekki er vitað hvað kom skriðinu af stað en líklegast er talið að það megi rekja til grunnvatns. Það sést meðal annars að nokkur tími getur liðið frá úrkomu þar til að hreyfing kemur fram. Þá hefur sést leirlag í sprungum sem kann að hafa áhrif.

Snjóa leysti óvenju seint í fyrra og svo komu haustrigningar. Að jörðin náði ekki að þorna á milli gæti hafa valdið skriði í haust.

Síðasta stökk í skriðinu var í kjölfar rigninganna milli jóla og nýárs. Landið hefur ekkert hreyfst síðan í lok janúar.

Líklegast er talið að hreyfingin á hlíðinni stöðvist án teljandi skriðufalla. Litlar spýjur gætu fallið fram og litað ár og læki. Líkön Veðurstofunnar gera líka ráð fyrir að meðalstórar skriður myndu falla í árfarvegi. Ólíklegast er talið að stórar skriður falli en þá gætu hús undir hlíðinni verið í hættu.

Frekari rannsóknir í ár

Mikilvægt er að halda áfram vöktun og munu jarðfræðingar kanna svæðið þegar snjóa leysir í vor og áfram í sumar. Gera þarf yfirborðskönnun og leita að fleiri sprungum og hvort þær séu nýjar. Bæta þarf við mælipunktum og kanna hversu langt niður í jörðina hreyfingin nær. Allt þetta nýtist til að gera betri jarðfræðikort og nákvæmari líkindareikninga. Eftir þetta þurfi að leggja mat á hættuna og skipuleggja áframhaldandi vöktun.

Svæðið sem er vaktað er allt neðan vegarins upp Oddsskarð en ábendingar hafa borist um sprungur fyrir ofan veginn. Harpa sagði að ekki hefði náðst að staðfesta þær fyrir jól en allt svæðið yrði skoðað betur.

Harpa sagði að sérfræðingar teldu að svipaðar hreyfingar hefðu áður orðið í hlíðinni og náð að gróa án þess að skriðuföll hafi komið fram. Það hafi komið í ljós við skoðun loftmynda. Svæðið er í framhlaupsurð sem skreið fram fyrir árþúsundum.

Veðurstofan fylgist með fleiri svæðum á landinu og eru tvö þeirra eystra. Fylgst er með Nesskriðum milli Loðmundarfjarðar og Húsavíkur og síðustu tvö ár með talsverðri hreyfingu í Stórskriðnadal í Borgarfirði. Framskrið ofan Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar er einnig mælt en það fer hægt.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.