Leiguverðið í hærra lagi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. júl 2022 11:17 • Uppfært 12. sep 2022 11:01
Leiguverð nýrrar íbúðar hins opinbera leigufélags Bríetar á Fáskrúðsfirði virðist langt yfir meðalleiguverði á Austurlandi. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar lýsir því sem í hærri kantinum en framkvæmdastjóri Bríetar segir þetta verðið sem þarf til að koma út á sléttu.
Leigufélagið Bríet keypti í vor parhús á Fáskrúðsfirði við Stekkholt. Um er að ræða fjögurra herbergja íbúð sem er 150,3 fermetrar auk 24 fermetra bílskúrs, alls 174,3 fermetrar. Eigin var í vikunni auglýst til leigu á vef Bríetar á 352.000 krónur, sem gera 2.346 krónur á fermetra.
Athugun Austurfréttar út frá tölum í vefsjá Þjóðskrár fyrir leiguverð sýna að það er vel í lagt. Meðalleiguverð á Fáskrúðsfirði er 1.726 kr/fm. Miðað við það væri leigan rétt rúmar 300.000 krónur á mánuði. Munurinn er um 500 kr/fm eða 36%.
Ásett fermetraverð er einnig vel í lagt samanborið við leiguverð í nágrannabyggðarlögum. Leiguverð á Austurlandi öllu er að meðaltali 1.610 krónur, í Neskaupstað 1396 krónur, 1.610 á Reyðarfirði, 1.844 krónur á Egilsstöðum og 1.887 krónur á Eskifirði.
Rétt er að hafa í huga að ýmsar breytir geta spilað inn í leiguverðið. Þannig eru stærri eignir gjarnan ódýrari á fermetra og nýrri eignir dýrari en eldri. Parhúsið á Fáskrúðsfirði er glænýtt.
Drífa Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri Bríetar, sagði í samtali við Vísi í gær að leiguverðið væri það sem til þyrfti þannig að núlli væri náð eftir bygginguna. Verðlagningin yrði mögulega endurskoðuð ef illa gengi að leigja. Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar sem jafnframt er varaformaður stjórnar Bríetar, sagði að ásett verð væri „mjög hátt.“
Bríet er að fullu í eigu íslenska ríkisins. Félagið er óhagnaðardrifið, komið á til að örva húsnæðismarkað um allt land.
Leigan á Fáskrúðsfirði er tengi vísitölu neysluverðs. Leggja þarf fram tryggingu sem nemur tveggja mánaða leigu fyrirfram. Rafmagn og hiti er ekki inni í leiguverði. Ekki er hægt að skoða eignina nema af myndum fyrir úthlutun, sá aðili sem fær úthlutað íbúðinni hefur sólarhringt til að ákveða sig eftir skoðun á eigninni sjálfri, að því er fram kemur á vef Bríetar. Nokkurt tölvulæsi þarf til að geta séð myndir af eigninni í þolanlegum gæðum á vefnum.
Í lýsingunni segir að stofa og hjónaherbergi séu með stórum gluggum og glæsilegu útsýni yfir fjörðinn. Gæludýr eru ekki leyfð.