Ólíðandi að vera á hnjánum að verja heilbrigðisstofnanir

frambodsfundur_va_0010_web.jpg
Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins segir ólíðandi að Austfirðingar hafi þurft að vera á hnjánum við að verja grunnþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu. Talsmenn stjórnarflokkanna benda á að minna hafi verið skorið niður í heilbrigðisþjónustu en öðrum geirum. Frambjóðendur skiptast í tvær fylkingar í afstöðu sinni til byggingar hátæknisjúkrahúss.

„Það hefur verið gengið of langt í niðurskurði, sérstaklega úti á landi og hér á þessu svæði,“ sagði Höskuldur Þór Þórhallsson, Framsóknarflokki, á opnum framboðsfundi í Verkmenntaskóla Austurlands í síðustu viku. Hann benti jafnframt á að niðurskurðurinn hefði bitnað sérstaklega á því sem kölluð væri „kvennastörf.“

Undir þetta tók Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, Sjálfstæðisflokki. „Það er ólíðandi að þurfa að vera á hnjánum að verja heilbrigðisstofnanir, grunnþjónustuna.“

Skila þarf niðurskurðinum til baka

Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum, sagði ríkisstjórnina hafa reynt að hlífa heilbrigðiskerfinu. „Það hefur minnst verið skorið niður í heilbrigðismálunum.“

Kristján Möller sagði að skila yrði því til baka sem þurft hefði að skera niður og efla heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni. Menn töluðu almennt fyrir því að efla þyrfti grunnþjónustuna á landsbyggðinni. 

„Það er allt til á Húsavík fyrir barnshafandi konur en þær þurfa samt að fara inn á Akureyri til að eiga,“ sagði Aðalheiður Ámundadóttir, Pírötum, sem bætti því við að hún þekkti það af eigin raun að sitja föst í ófærð í Víkurskarði með hríðir.

Brynhildur Pétursdóttir, Bjartri framtíð, sagði stefnu flokksins þá að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað og koma á tilvísunarkerfi. Hérlendis fari menn beint til sérfræðinga sem sé miklu dýrara.

Ekki til sömu peningar og fyrir hrun

Frambjóðendurnir tókust einnig á hvort rétt væri að nota peningana til að byggja hátæknisjúkrahús í Reykjavík eða efla þjónstuna. „Við teljum ekki rétt að byggja hátæknisjúkrahús. Við viljum frekar nota peninginn til að bæta kerfið á landsbyggðinni,“ sagði Gísli Tryggvason frá Dögun.

„Við erum alfarið á móti hátæknisjúkrahúsi. Það eru ekki til sömu peningar og fyrir hrun,“ sagði Höskuldur Þór.

Steingrímur varði hins vegar bygginguna. „Núverandi húsnæði er ekki viðunandi.“ Brynhildur tók í svipaðan streng. „Við erum ekki á móti nýju sjúkrahúsi. Ef ég fæ hjartaáfall er farið með mig á þetta sjúkrahús. Þetta er spítali okkar allra.“

Á móti steypuklumpum í Reykjavík

Áfram var tekist á um sjúkrahúsið á framboðsfundi á Egilsstöðum síðar sama dag. „Dögun er sérstaklega á móti steypuklumpum í Reykjavík,“ sagði Gísli við það tækifæri.

„Við erum ekki fylgjandi því að byggja risastórt hátæknisjúkrahús. Við erum komin fram af bjargbrúninni í heilbrigðismálum almennt. Við þurfum heilt yfir að bæta tækjakost og aðbúnað lækna á Landsspítalanum,“ bætti Ásta Kristín við.

Ekki hægt að gera ekkert í húsnæði Landsspítalans

Steingrímur hamraði áfram á því að ekki yrði unað við núverandi ástand í húsamálum Landsspítalans. „Við eigum að hætta þessu tali um hátæknisjúkrahús. Spítalarnir okkar eru það nú þegar. Landsspítalinn er hjartað í heilbrigðisþjónustu landsins. Það er ekki valkostur að gera ekkert í húsnæðismálum þar.“

Jónína Rós Guðmundsdóttir, sem sat þar fyrir Samfylkinguna, sagði menn gefa sér hæpnar forsendur í þegar þeir stilltu upp byggingu nýs spítala gegn rekstri þjónustunnar.

„Það verður að gera greinarmun á stofnkostnaði og rekstrarkostnaði. Við spörum til lengri tíma litið. Rétt eins og við Héraðsmenn erum stolt af fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað eiga landsmenn að vera stoltir af flottu sjúkrahúsi í Reykjavík.“
 
Áhrif nýrra lyfjalaga 
 
Ný lyfjalög voru einnig til umræðu á fundinum í Neskaupstað eftir að bent var að á að lögin legðu til dæmis aukinn kostnað á sykursýkisjúklinga. Ríkisstjórnarflokkarnir sögðu kerfið tekið upp að norrænni fyrirmynd. Steingrímur benti á að nefnd allra flokka hefði komið að undirbúningnum og lögin ættu almennt að leiða til lækkunar.

Aðrir, til dæmis Gísli Tryggvason, gengu svo langt að segja að þessi áhrif breytingunna væri „mannréttindabrot“ og Aðalheiður að verið væri að „skera niður mannréttindi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.